Vestfirðir: þrífösun kosta 1,6 – 2 milljarða króna

Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að til þess að ljúka þrífösun á veitusvæði Orkubús Vestfjarða þurfi að plægja 380 km af jarðstrengjum.

Ekki liggur fyrir nákvæm tala um kostnað,segir Elías, en kostnaður við hvern legg mótast mjög af jarðvegsaðstæðum á hverjum stað.  „Það má þó gróflega áætla að kostnaðurinn sé á bilinu 1,6 til 2 milljarðar króna og fjárfestingin í þrífösun þarf þá að meðaltali að vera yfir 100 mkr á ári ef öllu á að vera lokið fyrir árið 2035.“

Í skýrslu frá 2008 sem unnin var fyrir Iðnaðarráðuneytið segir að þrífasa þurfi 264 km sem kosti 908 milljónir króan á þáverandi verðlagi. Ljóst er að tíu árum seinna er matið annað en þá var.

Verkefnið hálfnað – rúmur milljarður króna

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir að Orkubúið hafi lagt mikla fjármuni í þrífösun á undanförnum árum „og eru fjárfestingarnar sem tengjast því verkefni nokkuð á annan milljarð nú þegar, en ætla má að nú sé verkefnið rúmlega hálfnað.“ Hann bendir á að áætlanir um þrífösun taki mið af því hversu mikið fé er til ráðstöfunar í framkvæmdir almennt, en einnig hvernig fjárfestingin þjónar flestum viðskiptavinum og hvernig hún eykur rekstraröryggi. “ Það má því segja að eftir því sem verkinu vindur fram þá sé verið að fara í „óhagkvæmari“ verkefni.  Niðurstaðan er að veitukerfið verður dýrara með hverju árinu án þess að tekjur aukist.  Ef farið er hratt í framkvæmdir og þær fjármagnaðar með lánum þá hefur það áhrif á afskriftagrunninn og tekjurammi veitunnar stækkar sem á endanum leiðir til hækkunar á gjaldskrá.“

Ofangreint viðmið við val á verkefnum í þrífösun er þó ekki algilt að sögn Elíasar , því upp hafa komið verkefni þar sem samlegðaráhrif af samstarfi við aðra aðila skipta miklu máli og kemur verkefnum í forgang.  „Þannig hefur Orkubúið átt í samstarfi við sveitarfélögin á Vestfjörðum, Neyðarlínuna og Mílu á undanförnum árum vegna lagningar ljósleiðara og hefur það í raun flýtt framkvæmdum í þrífösun á ákveðnum stöðum en jafnvel seinkað á öðrum.  Á sama tíma hefur framkvæmdahraðinn orsakað að þurft hefur að fjármagna framkvæmdirnar með lántöku .“

Gufudalssveit gæti flýtt þrífösun

Elías segir að Orkubúið þurfi ávallt að vera vakandi fyrir þeim framkvæmdum sem eru í gangi á svæðinu hverju sinni til að nýta þau samlegðaráhrif sem kunna að vera fyrir hendi.  „Þannig gætu myndast tækifæri samfara veglagningu í Gufudalssveit svo dæmi sé tekið.“

 

DEILA