Í skýrslu Verkís sem unnin var er fyrir Arctic Sea Farm og Arnarlax í framhaldi af því að Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi bæði starfs- og rekstrarleyfi fyrirtækjanna vegna 14.500 tonna laxeldis í Arnarfirði og Tálknafirði er rækilega farið yfir aðra valkosti en sjókvíaeldið. Er það gert til þess að mæta athugasemdum nefndarinnar, sem taldi þann annmarka vera á matsskýrslu fyrirtækjanna frá 2016.
Í kærum til úrskurðarnefndarinnar voru tilgreindir eftirtaldir valkostir: Notkun geldfisks (þ.e. ófrjór fiskur), eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum og minna sjókvíaeldi. Þá telur ÚUA að valkostir geti falist í mismunandi staðsetningu, umfangi, tilhögun og tæknilegri útfærslu. Verður hér birtur útdráttur úr skýrslunni sem fjallar um þessa valkosti.
Valkostir í viðbótarskýrslunni
Umfjöllunin byggir að mestu leyti á áliti Helga Thorarensen sérfræðings í fiskeldi hjá Háskólanum á Hólum um valkosti í laxeldi í Patreks- og Tálknafirði. Bornir eru saman möguleikar laxeldis í hefðbundnum eldiskvíum, úthafskvíum, lokuðum kvíum og landeldi á sunnanverðum Vestfjörðum. Einnig er fjallað um kosti eldis á ófrjóum laxi (þrílitna) í sjó.
Ófrjór eldislax
Með því að nota ófrjóan lax í eldi er að mestu hægt að koma í veg fyrir erfðablöndun eldislaxa við villta stofna laxfiska. Algengast er að lax sé gerður ófrjór með þrýstimeðhöndlun hrogna strax eftir frjóvgun og fást þá þrílitna fiskar. Þeir teljast ekki erfðabreyttir. Ófrjór þrílitna fiskur er viðkvæmari fyrir sjúkdómum og umhverfisaðstæðum og að afföll geti verið meiri en hjá frjóum tvílitna eldisfiski. Einnig virðist hryggskekkja og vansköpun vera algengari meðal ófrjórra eldisfiska. Svo virðist sem kjörhiti til vaxtar ófrjórra laxa sé lægri en hjá frjóum fiski, sem bendir til að ófrjór fiskur gæti hentað vel í eldi við íslenskar aðstæður. Reynslan bendir fremur til að hann sé síður heppilegur til eldis en ómeðhöndlaður fiskur, bæði hvað varðar vöxt og lífslíkur. Enn eru ýmiskonar vandamál óleyst við eldi á ófrjóum þrílitna laxi, allt frá meðferð hrogna, frumfóðrun seiða, seltuþol fisksins og vöxt fram að sláturstærð.
Þess vegna verður ekki séð að notkun á ófrjóum þrílitna laxi til eldis geti talist sambærilegur valkostur á þessum tíma og eldi á frjóum laxi.
Lokaðar eldiskvíar
Eldi með lokuðum eldiskvíum er eldisaðferð sem er enn á rannsókna- og þróunarstigi. Hér er um að ræða nánast fljótandi eldisker sem gefa ekki mikið eftir við straumum eða veðri og verða því að vera staðsettar í góðu skjóli. Þó svo að hálf lokuð kerfi geti venjulega þolað meiri ölduhæð en algerlega lokuð kerfi þá er með núverandi tækni og í samræmi við búnaðarstaðla NS9415 ekki til kerfi sem þola meira en 1,5-2 m ölduhæð. Í Patreks- og Tálknafiðri er varla hægt að finna slík svæði og sannarlega ekki þar sem dýpi er meira en 30 metrar.
Lokað kerfi krefst dælingar á sjó, íblöndun súrefnis og upptöku á lífrænum úrgangi sem fellur til. Vatni eða sjó þarf að dæla af 20-30 m dýpi, neðan lúsabeltis. Vatnshiti mun því ekki ná yfirborðsvatnshita sumarsins og því verður meðalhiti innan ársins heldur lægri en í hefðbundinni sjókví og það hefur neikvæð áhrif á vaxtarhraða eldisfisksins.
Áætlað er að eldiskostnaður sé um 23% hærri en í kvíaeldi. Hins vegar liggja ekki fyrir upplýsingar um stofn- og rekstrarkostnað sem byggja á beinni reynslu né um vöxt eldisfisks. Þessi eldisaðferð er enn á þróunarstigi og getur ekki talist kostur á sama hátt og landeldi og sjókvíaeldi þar sem forsendur rekstrar liggja fyrir og tækni er þekkt.
Landeldi
Á Íslandi er til staðar nokkuð löng reynsla af landeldi bæði á laxi og bleikju. Í dag er framleiðsla á laxi í landeldi upp í markaðsstærð um 1.500 – 2.000 tonn og gert er ráð fyrir að sú framleiðsla muni aukast eitthvað á næstu árum.
Landeldi er fýsilegur kostur á svæðum þar sem gott aðgengi er að jarðhita.
Í landeldisstöðvum á Íslandi er vatnsnotkun um 26 L fyrir hvert kg af laxi sem framleitt er. Til að ala 17.500 tonn af laxi þyrfti um 10-15 m3 /s af 10°C heitu vatni. Sú orka sem þyrfti til að dæla vatni er meiri en helmingur af raforkuframleiðslu Mjólkárvirkjunar auk þess að raforkuflutningskerfi á Vestfjörðum myndi ekki anna slíkri orkuþörf.
Stofnkostnaður vegna gegnumstreymiskerfis í landeldi er mun hærri en í hefðbundnu kvíaeldi og til að reka slíkar stöðvar þarf umtalsverða orku, bæði rafmagn til dælingar og súrefnisframleiðslu. Eins þarf jarðvarma til þess að kjöreldishiti geti verið sem næst 8-12oC. Í nýlegri skýrslu frá Noregi er borinn saman kostnaður við mismunandi aðferðir í laxeldi. Þar kemur fram að áætluð heildarorkuþörf í gegnumstreymiskerfi í landeldi er 6-9 kw á kg framleitt. Ef miðað er við þær forsendur þyrfti alla orku Mjólkárvirkjunar til eldisins, en gert er ráð fyrir að raforka yrði einnig notuð til upphitunar.
Forsendur til þess að stunda landeldi á laxi á sunnanverðum Vestfjörðum eru ekki fyrir hendi þar sem hvorki er nægilegt rafmagn né jarðhiti fyrir hendi á sunnanverðum Vestfjörðum til að framleiða 17.500 tonn af laxi.
Aðrar tegundir laxfiska
Arctic Sea Farm hefur reynslu af eldi á regnbogasilungi og það skal ekki útilokað að slíkt eldi gæti verið raunhæfur kostur ef breytingar verða í umhverfi og/eða á markaðsaðstæðum. Samkvæmt reynslu fyrirtækisins henta umhverfisaðstæður hér á Íslandi betur kuldaþolnari laxfiskum af Saga stofni en þeim stofni regnbogasilungs sem Matvælastofnun hefur leyft innflutning fyrir. Einnig eru markaðsaðstæður þannig að bæði verð sem og stöðuleiki í eftirspurn gerir eldi á laxi betri kost en eldi á regnbogasilungi í dag.