Guðmundur Ingi Guðmundsson, umhverfisráðherra sagði í gær í viðtali við Stöð2 og visir.is að hann væri ósammála ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa út áframhaldandi hvalveiðikvóta. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í gær reglugerð sem heimilar áframhaldandi veiðar á langreyði og hrefnu til næstu fimm ára.
Orðrétt sagði ráðherrann:
„Það er alveg ljóst og ég tel að við þurfum að byggja þessa ákvarðanatöku upp á fleiru heldur en bara vísindaráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, það þurfi að líta meira til efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa eins og ég hef bent á áður,“ sbr. http://www.visir.is/g/2019190229860/umhverfisradherra-osammala-akvordun-um-aframhaldandi-hvalveidar.
Hvað með laxeldi í sjó ?
Þessi ummæli eru athyglisverð í því ljósi að Umhverfisráðherra hefur lýst yfir þörf á breiðari sátt um laxeldið og hefur lagt áherslu á að sjókvíaeldi væri umdeilt út frá umhverfissjónarmiðum. Þá snerist hann sem framkvæmdastjóri Landverndar gegn sjókvíaeldinu.
Þann 8. okt 2018 eftir að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál felldi úr gildi rekstrar- og starfsleyfi Arnarlax og Arctic Sea Farm til 14.500 tonna framleiðslu í Tálknafirði og Patreksfirði skrifaði hann á facebook síðu sína:
„Langtímaverkefnið er skýrt: Að sjá til þess að íslenskt fiskeldi þróist í átt að því öruggasta sem hægt er út frá umhverfissjónarmiðum, hvort sem varðar laxalús, erfðablöndun, úrgang frá eldi eða annað. Að mínu mati þarf að styðja betur við þróun fleiri aðferða í fiskeldi en ekki einungis að vera með sjókvíaeldi í opnum kvíum. Það er ekki bara mikilvægt fyrir náttúruna heldur einnig byggðir landsins. Við verðum að vera meðvituð um áhættuna sem við tökum gagnvart náttúru landsins og draga úr umhverfisáhrifum laxeldis með öllum tiltækum leiðum,“
Þarna leggur hann áhersluna á umhverfissjónarmiðin en víkur ekkert að efnahagslegum áhrifum og lítið að samfélagslegum áhrifum.
Efnahagsleg og samfélagleg áhrif af fiskeldi á Vestfjörðum eru gríðarleg. Nú þegar eru útflutningstekjur af laxeldi á Vestfjörðum meiri en af lax- og silungsveiði um allt land. Vaxtarmöguleikarnir eru slíkir að útflutningstekjur landsmanna geta vaxið um 70 – 80 milljarða króna á ári af laxeldi á Vestfjörðum miðað við það burðarþolsmat sem þegar liggur fyrir. Þessar gríðarlegu tekjur munu bæta lífskjör landsmanna mikið á næstu árum ef uppbyggingin gengur eftir.
Samfélagslegu áhrifin á Vestfjörðum yrðu líka byltingu líkast í fólksfjölgun um almennri uppbyggingu. Um það er ekki að villast.
Hvað segir Umhverfisráðherrann um þessi efnahagslegu og samfélagslegu áhrif? Eru þau ekki þessi virði fyrir Vestfirðinga og ekki síður fyrir þjóðarhag?
Hvalárvirkjun og Vestfjarðavegur um Þ-H leið
Tvö önnur mál koma upp í hugann við lestur á ummælum ráðherrans. Í báðum málum er bæði flokkur ráðherrans og Landvernd mjög andvíg þeim og hafa beitt sér hart um árabil gegn framkvæmdum. Sú afstaða hefur verið byggð á umhverfislegum viðhorfum en ekki litið til efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa af þeim. Þarna er átt við Hvalárvirkjun og nýjan Vestfjarðaveg.
Spurningin sem vaknar eftir svör Umhverfisráðherrans við spurningu um hvalveiðar er hvort ráðherrann muni endurmeta afstöðu sína í ofangreindum þremur málum Vestfirðinga sem hann hefur lagst gegn. Varla er áhersla ráðherrans á efnahagsleg og samfélaglegt áhrif bara bundin við mál þar sem þessi áhrif eru honum rök sínu viðhorfi til stuðnings, heldur hljóta þau að hafa áhrif í öðrum málum og verða til þess að ráðherrann endurmeti viðhorf sitt í þeim málum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið í þessum rökum.
-k