Umferð í veggöngum og forgangsröðun á búnaði þar

Jónas Guðmundsson.

Nú liggja fyrir tölur um umferð árið 2018 í þeim fimm veggöngum sem búin eru sjálfvirkum teljurum. Sérstaka athygli vekur að það ár eru Bolungarvíkurgöng fjölförnustu göng landsins á eftir Hvalfjarðargöngum með tæplega 1.000 ökutæki að meðaltali á dag eða hátt í 250 fleiri ökutæki en þau göng sem næst koma (meðalumferð á dag í Hvalfjarðargöngum 2018 var 7.270 ökutæki).

Traust farsímasamband er eftir því sem best er vitað komið í öll þau 10 veggöng sem eru í notkun hérlendis en í fimm þeirra er ekki búnaður til útvarpsútsendinga. Í Bolungarvíkurgöngum var slíkur búnaður settur upp fyrir rúmu ári skv. sérstöku samkomulagi við Vegagerðina til tveggja ára.

Í fréttum á vef Ríkisútvarpsins á dögunum var greint frá áformum um uppsetningu svonefndra meðalhraðamyndavéla í hinum nýju og vel búnu Norðfjarðargöngum og sagði þar m.a. ”Vegagerðin undirbýr að taka í notkun nýja tegund hraðamyndavéla sem reikna út meðalhraða yfir langa vegalengd. Vélar hafa verið settar upp í Norðfjarðargöngum og á Grindavíkurvegi en eru ekki komnar í notkun.” Þá sagði: “Til stendur að koma fyrir myndavélum sem reikna út meðalhraða víðar, fyrst og fremst í jarðgöngum og þar sem slys vegna hraðaksturs eru tíð. Slíkar vélar hafa þegar verið settar upp milli Grindavíkur og Bláalónsafleggjara en eru enn óvirkar.” Þá er í fréttinni vitnað í viðtal við yfirlögregluþjón á Austurlandi þar sem haft er eftir honum: “Við höfum hins vegar verið að mæla hérna í göngunum talsvert og farið þarna inn og á öllum tímum. Sem betur fer er mjög lítið um hraðakstur í göngunum hérna á Austurlandi.“

Í framhaldi af þessu beindi Samgöngufélagið fyrirspurn til Vegagerðarinnar um þennan búnað og tengd atriði og fékk skjót og greið svör. Meðal þess sem kom fram var að stofnkostnaður við búnað eins og hér um ræðir sem mælir meðalhraða í báðar áttir er 55 til 60 m.kr. Ekki er vitað um rekstrarkostnað þar sem búnaðurinn hefur enn ekki verið tekinn í notkun en beðið er eftir samþykki þar til bærra yfirvalda (væntanlega löggæsluyfirvalda og Persónuverndar).

Spurt var hverju það sætti að þessi búnaður er fyrst settur upp í Norðfjarðargöngum en ekki fjölfarnari göngum t.d. Hvalfjarðargöngum eða Vaðlaheiðargöngum, m.a. í ljósi þess sem fyrr er rakið um lítinn hraðakstur. Var svarað á þá leið að við undirbúning Norðfjarðarganga hafi þótt eðlilegra að horfa til sjálfvirks meðalhraðaeftirlits frekar en sjálfvirks punkthraðaeftirlits þar sem þessi búnaður hefur haft mjög jákvæð áhrif á umferðaröryggi í Noregi. Jafnframt kom fram að við endurnýjun hraðamyndavéla í Hvalfjarðargöngum væri líklegt að horft yrði til meðalhraðaeftirlits en þó hefði ekki verið ákveðið hvar búnaður sem þessi yrði settur upp næst.

Við þetta vakna spurningar um forgangsröðun varðandi bæði hvaða hlutverki sá búnaðar til aukins öryggis í veggöngum hérlendis er ætlað og einnig hvað göng verða fyrir valinu. Þótt hér verði látið liggja milli hluta hvað göng urðu fyrir valinu fyrir þennan hraðamælibúnað þykir mega velta því fyrir sér hvort ekki væri að því aukið öryggi og öryggistilfinning fyrir vegfarendur að ná útsendingum útvarps í fleiri göngum en nú er, en í Noregi, sem áður er nefnt, er búnaður til útsendinga útvarps hluti af öryggisbúnaði vegganga.

Einnig skal nefnt að fyrir andviðri þessa meðalhraðabúnaðar mætti greiða fyrir búnað til útvarpsút-sendinga í fimm af átta göngum sem eru án búnaðar til útsendinga útvarps (áætlað verði í sviga), þ.e. í Bolungarvíkurgöngum (12 m.kr.), Héðinsfjarðargöngum (20 m.kr.), Fákskrúðsfjarðargöngum (12 m.kr.), Almannaskarðsgöngum (5 m.kr.) og Strákagöngum (12 m.kr.), en áætla má að heildarkostnaður við uppsetningu búnaðar til útsendinga útvarps í öllum veggöngum hérlendis sem enn eru án slíks búnaðar sé um 120 m.kr. Nefnt skal að mun kostnaðarsamara er að koma útsendingarbúnaði í elstu göngin þ.e. Vestfjarðagöng (60 m.kr.), Múlagöng (25 m.kr.) og Strákagöngum, sem öll eru einbreið og að sama skapi varasamari, þar sem þar er ekki svonefndur koaxstrengur sem hækkar kostnað umtalsvert. Hér er miðað við kostnað við uppsetningu svipaða og í Bolungarvíkurgöngum sem er með lítið eitt skert öryggi útsendinga miðað við ýtrustu kröfur. Á móti mætti eflaust ná kostnaði eitthvað niður með því að bjóða út búnað og uppsetningu hans í einu lagi fyrir öll göngin.

Er vonandi að ljúka megi sem fyrst við að koma búnað til útsendinga úrvarps í öll göng hérlendis ekki síst þau sem telja verður varasömust þar sem þau eru einbreið en þó fjölfarnari en t.d. Norðfjarðargöng.

Í töflunni sést meðaldagsumferð í öllum göngum þar sem tölur eru tiltækar síðustu þrjú ár nema Hvalfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum (Norðfjarðargöng voru tekin í notkun í lok árs 2017) og aðeins liggja fyrir tölur fyrir árið 2018 í þeim fimm göngum þar sem eru sjálfvirkir umferðarteljarar. Þess má geta að umferð um Vaðlaheiðargöng sem tekin voru í notkun í lok árs 2018 var fyrsta mánuðinn í kring um 1.000 ökutæki á dag.

Jónas Guðmundsson
Höfundur er fyrirsvarsmaður Samgöngufélagsins, www.samgongur.is

Hlekkir:

DEILA