Strandabyggð: synjar um styrk til Búnaðarsambands Vestfirðinga

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók fyrir styrkumsóknir á fundi sínum í síðustu viku. Samþykktir voru styrkir til Hvatastöðvarinnar að fjárhæð kr. 50.000 og til Þjóðleiks á Vestfjörðum kr. 100.000. Sveitarstjórn fól sveitarstjóra að sjá um að auglýsa sjóðinn vel mánuði fyrir úthlutun, á heimasíðu sveitarfélagsins og facebook síðu sveitarfélagsins.

En synjað var styrkumsókn frá Búnaðarsambandi Vestfirðinga, sem óskaði eftir 250 þúsund króna styrk til þess að ljúka útgáfu um byggðir í hverri sýslu á sambandssvæðinu.

Búnaðarsambandið hóf útgáfuna um síðustu aldamót á vönduðum bókum með ábúendatali frá 1900 ásamt myndum af húsakosti og ábúendatali.

Í bréfi Búnaðarsamabndsins segir:

„Allnokkur hagsaga síðustu aldar og fram að útgáfudögum birtist í flestum bókanna. Útgáfan hefur mælst vel fyrir og sala þeirra gengið vel. Með stuðningi viðkomandi sveitarfélaga hefur tekist að komast skuldlaus fá starfseminni.

Eina svæðið sem eftir er er Norður-Ísafjarðarsýsla og er stefnt að því að prentun þeirrar bókar ljúki haustið 2019. Gott tilboð hefur fengist í prentun og þess er vænst að aðrir kostnaðarliðir verði sanngjarnir s.s umbrot og ritstjórn. Ritstjóri er Björgvin Bjarnason.
Gert er ráð fyrir 700 bóka upplagi og hver bók verði um 400 bls. Útsöluverð 8.900.“

 

DEILA