Reykhólar: samþykkt að auglýsa aðalskipulagsbreytingar vegna Þ-H leið

Eins og við var búist samþykkti sveitarstjórn Reykhólahrepps á fundi sínum í gær að auglýsa breytingu á aðalskipulagi hreppsins fyrir 2006 – 2018 vegna Þ-H leiðar fyrir Vestfjarðaveg um Gufudalssveit.Ráðgjafi við mótun tillögunnar var Alta ehf.

Tillagan var eftirfarandi:

„Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar.“

Aðeins tvö atkvæði með

Var hún samþykkt með aðeins tveimur atkvæðum en þrír sveitarstjórnamenn sátu hjá.

Árný Huld Haraldsdóttir, varaoddviti og Rebekka Eiríksdóttir, varamaður greiddu tillögunni atkvæði sitt. En hjá sátu Ingimar Ingimarsson, oddviti, Karl Kristjánsson og varamaðurinn  Ágústa Ýr Sveinsdóttir. Lögðu þau fram eftirfarandi bókun:

„Undirrituð telja að R-leið Multiconsult sé heppilegust fyrir samfélagið á Reykhólum og Reykhólahrepp. Það sýnir valkostagreining Viaplan svo ekki verður um villst. En þar sem leið Þ-H var ákveðin af meirihluta sveitarstjórnar 22. janúar s.l. munum við ekki standa í vegi fyrir frekari afgreiðslu málsins. Því sitjum við hjá.“

Nú verða breytingartillögurnar á aðalskipulaginu auglýstar í nokkrar vikur og gefst þá kostur á að gera athugsemdir.

DEILA