Stjórn Öryrkjabandalagsins egrði samþykkt um skerðingar á bótum Tryggingarstofnunar ríkisins vegna búsetu erlendis. Segir að öryrkja hafi verið hlunnfarnir um hálfan milljarð króna árlega í mörg ár. Brotin eru viðurkennd af stjórnvöldum en samt er ennþá beitt skerðingum, segir í ályktuninni. Krafist er að skerðingum verði þegar í stað hætt og frá 1. mars verði greiddar réttar bætur.
Ályktunin í heild:
Á fundi stjórnar ÖBÍ í gær var samþykkt eftirfarandi ályktun um búsetuskerðingar TR:
„Stjórnvöld hafa viðurkennt að stór hópur örorkulífeyrisþega, yfir þúsund manns, hafi verið hlunnfarinn um yfir hálfan milljarð króna árlega, með ólöglegum útreikningi búsetuhlutfalls. Þetta byggir á áliti Umboðsmanns Alþingis sem birti álit um málið í júní 2018 og eins og áður segir hafa stjórnvöld nú loks viðurkennt brotin. Enn hefur samt sem áður ekkert gerst og hinar ólögmætu skerðingar eru enn framkvæmdar. Ljóst er að þessi framkvæmd TR á búsetuskerðingum hefur staðið í a.m.k. áratug. Það þýðir að sá hópur örorkulífeyrisþega, sem verður fyrir skerðingum vegna fyrri búsetu í aðildarríkjum EES, hefur orðið af um fimm milljörðum króna auk vaxta á þessu tímabili.
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands krefst þess að stjórnvöld stöðvi strax hina ólögmætu skerðingu og greiði örorkulífeyrir miðað við réttan útreikning búsetuhlutfalls frá og með 1. mars næstkomandi.
Stjórn Tryggingastofnunar ríkisins skuldar því fólki sem lent hefur í þessum skerðingum opinbera afsökunarbeiðni. Skaðinn verður aldrei bættur að fullu en fyrsta skrefið er að greiða til baka hverja krónu sem tekin hefur verið af örorkulífeyrisþegum.
Stjórn ÖBÍ gerir kröfu um að TR greiði búsetuskertum örorkulífeyrisþegum hinar ólögmætu skerðingar tíu ár aftur í tímann. Ekki er hægt að réttlæta það að stjórnvöld valdi örorkulífeyrisþegum tjóni í tíu ár en greiði svo einungis tæplega helming þess tjóns til baka.
Vandræðagangur stjórnvalda í þessu máli er með ólíkindum. Tryggingastofnun og ráðuneytin vísa hvert á annað og halda þannig áfram þeim ljóta leik að skerða réttindi fólks í andstöðu við lög.
Ekkert um okkur án okkar!“