Ljósleiðaravæðing á Vestfjörðum

Fjarskiptasjóður hefur veitt 20 milljóna króna styrk til ljósleiðaravæðingar á Vestfjörðum á þessu ári og því næsta.

Í Vesturbyggð er gert ráð fyrir því að 5 milljóna króna styrkur verði nýttur á Barðaströnd. Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir að styrkurinn upp á 2 milljónir króna sé ætlaður til ljósleiðaralagningar í Ísafjarðardjúpi. Heildarkostnaður liggur ekki fyrir og sveitarstjórn hefur ekki ákveðið hvort styrkurinn verði þeginn, að sögn Þorgeirs.

Ísafjarðarbæ fékk styrk að fjárhæð 10 milljónir króna. Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri segir að í þessum áfanga verði samtals 26 styrkhæfir staðir í dreifbýli í innanverðum Önundarfirði og sunnanverðum Dýrafirði. „Verkefnið er eingöngu gróflega áætlað á þessu stigi og ekki er búið að teikna nákvæmlega upp hvaða staðir verða tengdir, en gert er ráð fyrir að Ísafjarðarbær leggi um 10 milljónir í verkefnið og 10 milljónir hafa fengist úr Fjarskipasjóði. Þá gerum við ráð fyrir að framkvæmdaraðilinn, sem eftir á að velja og semja við, taki einnig á sig kostnað. Áætlun gerir ráð fyrir að heildarkostnaður verði 41 milljón, en heimilt er að fella út mjög dýra einstaka staði ef þörf krefur, en það fer auðvitað m.a. eftir því hversu mikið framkvæmdaraðilinn er tilbúinn að leggja í verkefnið.“

 

 

DEILA