Lífskraftur : Fokk – ég er með krabbamein!

Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, hélt útgáfuhóf á Kaffi Flóru í gær, mánudaginn 4. febrúar, á Alþjóðlegum degi gegn krabbameinum. Haldið var upp á að búið er að endurútgefið bókina LífsKraftur í algjörlega nýrri mynd.

Fjölmargir kíktu í hófið og þar á meðal Frú Vigdís Finnbogadóttir sem er verndari Krabbameinsfélags Íslands en Kraftur er einmitt eitt af aðildarfélögum þess. „LífsKraftur hefur fengið þvílíka andlitslyftingu“, sagði Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts í útgáfuteitinu. „Bókin kom fyrst út árið 2003 en þar sem Kraftur er 20 ára í ár ákváðum við að endurskrifa hana með það í huga að hún höfðaði betur til ungs fólks, gera hana myndrænni og láta hana svara auðveldlega spurningum sem koma upp í huga fólks þegar það greinist með krabbamein eða þegar ástvinur greinist. Undirtitill bókarinnar hittir beint í mark þó hann sé vissulega ögrandi líka en hann er Fokk ég er með krabbamein sem er jú kannski fyrsta hugsunin sem kemur upp þegar maður fær svona fréttir“, sagði Hulda enn fremur.

LífsKraftur inniheldur hagnýtar upplýsingar fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein, aðstandendur þeirra og vini. Tilgangur þessarar útgáfu er að safna saman á einn stað upplýsingum, fræðsluefni og bjargráðum sem koma að gagni fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur. Allir sem greinast með krabbamein á aldrinum 18-45 ára og fjölmargir fleiri fá bókina afhenta sér að kostnaðarlausu en hún liggur einnig frammi á öllum spítölum landsins. Einnig er bókin inn á vefsíðu Krafts, www.kraftur.org.

Heilbrigðisstofnanir og aðrir geta sett sig í samband við Kraft til að fá bókina senda til sín.

Vigdís Finnbogadóttir er verndari Karbbameinsfélags Íslands.
DEILA