Landvernd gegn Hvalárvirkjun: íslensk náttúra í hættu!

Landvernd umhverfissamtök hafa hafið undirskriftasöfnun gegn Hvalárvirkjun. Í aðfararorðum að áskorun segir Landvernd:

Íslensk náttúra í hættu! Skorum á umhverfis- og auðlindaráðherra og forstjóra Umhverfisstofnunar að hraða vinnu við friðlýsingu á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur málið, skrifa undir og dreifa sem víðast.

 

Áskorunin hefst á þessum orðum:

„Við skorum á umhverfis- og auðlindaráðherra og forstjóra Umhverfisstofnunar að hraða vinnu við friðlýsingu á áhrifasvæði Hvalárvirkjunar, Drangajökulssvæðinu þannig að hægt sé að leggja friðlýsinguna fyrir Alþingi á haustþingi.
Jafnframt biðlum við til hreppsnefndar Árneshrepps að taka til skoðunar friðlýsingu á óbyggðum víðernum á skipulagssvæði hreppsins í stað Hvalárvirkjunar.“

Þá segir að ef af Hvalárvirkjun verði sé  „um er að ræða óafturkræf spjöll á einstöku landssvæði. Svæðið er metið mjög verðmætt óraskað en umhverfisáhrif virkjunarinnar eru talin verulega neikvæð og samfélagsleg áhrif óveruleg. Ávinningur af friðlýsingu er ótvíræður til langs tíma.“

Vísað er til álits Skipulagsstofnunar ríkisins um Hvalárvirkjun sem og tillögu Náttúruverndarstofnunar Íslands um friðlýsingu á áhrifasvæði virkjunarinnar. Þá er einnig vísað til skýrslu Environice sem unnin var fyrir samtökin Ófeig og sagt hefur frá á bb.is.

DEILA