Landeldið kært líka

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur fellt þrjá úrskurði þar sem fyrirhugað landeldi var kært. Var kærunum í öllum tilvikum hafnað eða vísað frá.

Í tveimur málum var kært annars vegar rekstrarleyfi og hins vegar starfsleyfi fyrir allt að 500 tonna seiðaeldisstöð Þorlákshöfn.

Kærendur voru Veiðifélag Árnesinga, Náttúruverndarsamtök Íslands og náttúruverndarfélagið Laxinn lifi. Fyrirtækið sem hyggst reka seiðaeldisstöðin heitir Laxar fiskeldi ehf.  Það var MAST sem gaf út rekstrarleyfið og var kærunni beint að stofnuninni.

Úrskurðarnefndin segir ólíku saman að jafna varðandi hugsanlega sleppingu úr sjókvíum og þegar verið er að flytja seiði í sjókvíar með brunnbát. Er það mat úrskurðarnefndarinnar ekki hafi raunhæft gildi fyrir lögvarða hagsmuni veiðifélagsins að fá leyst úr ágreiningi um lögmæti þeirrar ákvörðunar Matvælastofnunar frá 13. nóvember 2017 að gefa út rekstrarleyfi og vísaði kærunni frá.

Sama niðurstaða varð í málshöfðun sömu aðila gegn Umhverfisstofnun sem veittir starfsleyfið og var kærunni vísað frá.

Í þriðja málinu var Skipulagsstofnun kærð fyrir að  telja að ekki þurfi að setja umhverfismat áform um 1200 tonna seiðaeldi á landi á Árskógsströnd. Kærendur voru Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Fnjóskár og Veiðifélag Eyjafjarðará. Árós Fnjóskár er í um 12 km fjarlægð frá fyrirhugaðri seiðaeldisstöð og árós Eyjafjarðarár í um 35 km fjarlægð. Í vörn Skipulagsstofnunar er bent á að litlar líkur séu til þess að seiði sleppi og komist í sjó.

Úrskurðarnefndin vísaði frá kærum Veiðifélags Fnjóskár og Veiðifélags Eyjafjarðarár, og hafnaði kröfu annarra kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar.

DEILA