Ísafjarðarbær: Mikilvægt að horfa til efnahagslegra og samfélagslegra þátta

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fagnar nýlegum ummælum Umhverfis- og auðlindaráðherra sem hann lét falla í tengslum við jvalveiðar að líta þurfi til efnahagslegra og samfélagslegra þátta en ekki eingöngu vísindaráðgjafar þegar kemur að ákvarðanatöku um nýtingu auðlinda. Bendir bæjastjórnin á að þetta eigi við um ábyrgja uppbyggingu laxeldis í sjó, virkjunaráform og vegagerð í fjórðungnum.

Ályktun um þetta var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær með öllum greiddum atkvæðum 9:0. Ályktunin í heild:

„Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar tekur undir þau orð umhverfis- og auðlindaráðherra, sem hann lét falla varðandi hvalveiðar, að líta þurfi til efnahagslegra og samfélagslegra þátta en ekki eingöngu vísindaráðgjafar þegar kemur að ákvarðanatöku um nýtingu auðlinda. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og haldið hefur verið á lofti varðandi ábyrga uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi. Vísað hefur verið til þess að andstaða við hvalveiðar er meiri en stuðningur samkvæmt nýrri könnun, en munar þó ekki nema 0,6% (35,7% andvígir, 35,1% hlynntir). Benda má, í því samhengi, á að samkvæmt könnun Gallup frá því í nóvember voru 46,3% landsmanna jákvæðir gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum en 29,6% neikvæðir.

Ísafjarðarbær hefur einnig bent á mikilvægi þess að horfa til efnahagslegra og samfélagslegra þátta varðandi nauðsynlegar úrbætur í samgöngum á Vestfjörðum og varðandi áform um varanlega lausn í raforkumálum fjórðungsins. Í öllum þessum málum hafa Vestfirðingar talað fyrir daufum eyrum þegar bent hefur verið á nauðsyn þess að líta til fleiri áhrifaþátta. Þessi afstaða ráðherra er því mikið fagnaðarefni.“

DEILA