Fiskeldið enn kært – nú til útlanda

Sjö umhverfisverndarsamtök hafa klagað íslensk stjórnvöld fyrir eftirlitsnefnd Árósarsamningsins vegna breytinga á lögum um fiskeld. Segja samtökin að þessar breytingar brjóti gegn ákvæðum samningsins. 

Tilefnið er lagasetning á Alþingi sem var til þess að bregðast við úrskurðum Úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál. Nefndin hafði fellt úr gildi bæði rekstrar- og starfsleyfi Arctic Sea Farm og Arnarlax fyrir 14.500 tonna laxeldi í Arnarfirði og Tálknafirði. Brugðist var við með fyrrnefndri lagasetningu sem gerði sjávarútvegsráðherra kleift að gefa úr bráðabirgðarekstrarleyfi sem gildir meðan fyrirtækin bæta við umhverfismatsskýrsluna því sem nefndinni þótti þar vanta um samanburð á valkostum og meðan fyrirtækin bera úrskurð nefndarinnar undir dómstóla.

Þetta telja umhverfisverndarsamtökin sjö ganga gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt Árósasamningnum með eftirfarandi hætti:

 ·         Við bráðabirgðaleyfisveitingu (sem getur verið til allt að 20 mánaða) samkvæmt hinum nýju lögum er ekki gert ráð fyrir þátttöku almennings og samtaka almennings eins og umhverfisverndarsamtökum við ákvarðanatökuna þannig að þessir aðilar geti komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Árósasamningurinn var m.a. gerður til þess að tryggja að fleiri raddir heyrðust þegar ákvarðanir um stórar framkvæmdir eða rekstrarleyfi eru teknar. Er það grundvöllur þess að sjónarmiðum náttúru- og umhverfisverndar sé gert jafn hátt undir höfði og öðrum sjónarmiðum.

 ·         Hin nýja löggjöf útilokar að kærurétt umhverfisverndarsamtaka vegna leyfisveitinga til óháðs og hlutlauss aðila eins og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 ·         Þá telja samtökin að með lagasetningunni hafi Alþingi vegið mjög að sjálfstæði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála gagnvart löggjafarvaldinu því lögin voru sett til að hægt væri að fella úr gildi úrskurði nefndarinnar.

Samtökin sjö sem standa að kærunni til eftirlitsnefndar Árósarsamningsins eru:

Landvernd, Eldvötn, Fjöregg, Fuglavernd, Náttúruverndarsamtök Austurlands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Ungir Umhverfissinnar.

Áður hefur komið fram að Landvernd hefur kvartað til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) vegna sama máls.

Árósasamningurinn er um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum frá 25. júní 1998. Samningurinn öðlaðist gildi 30. október 2001. Ísland fullgilti samninginn í október 2011.

DEILA