Dýrafjarðargöng – framvinda í viku 8

Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í viku 8 við vinnu Dýrafjarðarganga.

Í viku 8 voru grafnir 94,1 m í göngunum Dýrafjarðarmeginn. Lengd ganganna í Dýrafirði fóru yfir 1 km í vikunni og var í lok vikunnar 1.056,8 m sem er 64,3 % af leggnum sem er eftir og er búið að grafa í heildina 88,9 % af göngunum. Eru núna 586,6 m að gegnumbroti.

Grafið var í basalti og kargalagi og seinni part vikunnar var þunnt, 2-5 cm þykkt setlag á stafninum. Allt efni úr göngunum var keyrt beint í vegfyllingu.

Í göngunum Arnarfjarðarmeginn var haldið áfram með gröft á lagnaskurðum og fleygun fyrir brunnum ásamt vinnslu á jarðefnum.

Í vegagerð Dýrafjarðarmegin var unnið við grjótröðun eftir veginum sem liggur meðfram sjó að þveruninni yfir Dýrafjörð. Haldið var áfram með fyllingar í vestur frá munnanum og fyllingar hækkaðar með efni úr göngunum. Núna á eftir að setja fyllingu á tæplega 500 m kafla til að tengja saman veg frá göngunum við veg sem hefur verið lagður inn eftir firðinum.

Á meðfylgjandi myndum má sjá hlöss af grjóti sem nota á í grjótvörn og Kjaranstaði fyrir ofan. Horft eftir veginum frá munnanum í vestur og má sjá hvar þykka, rauða setlagið sem grafið var í gegnum fyrr á árinu hafa verið sett í veginn. Enda vegarins sem liggur frá göngunum og mynd af göngunum þar sem sést aðeins í þunna setlagið og bergboltarnir sem settir voru í þekjuna sjást vel.

DEILA