Bolafjall: Út fyrir ystu brún

Í dag kynnt vinningstillaga um útsýnispall á Bolafjalli. Fimmtán hönnunarteymi óskuðu eftir því að fá að taka þátt í samkeppninni og þrjú þeirra voru dregin út. Vinningstillagan er frá Landmótun, Sei og Argos.

Um vinningstillöguna segir í áliti dómnefndar að vinningstillagan sé látlaus en afar sterk hugmynd sem virðir umhverfið og ber það ekki ofurliði.

„Tillagan uppfyllir markmið samkeppninnar um að gera útsýnisstaðinn á Bolafjalli að eftirsóknaverðum ferðamannastað á Vestfjörðum og þó víðar væri leitað. Hönnun pallsins býr yfir eiginleikum bæði varðandi fagurfræði og staðsetningu til þess að pallurinn verði einstakur í sínum flokki. Hann fellur vel að umhverfinu og endurspeglar í hlutföllum og útfærslu mikilfengleika þess.“

Pallurinn verður 58,5 metra langur og hallar 3 gráður niður eftir langhliðinni og skagar 4 metra fram yfir fjallsbrúnina sem hann fylgir.

Geggjaðar hugmyndir hafa breytt heiminum

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að vinningstillagan dragi fram það besta í fjallinu án þess að mannvirkið verði að aðalatriðinu og það verði mögnuð upplifun að standa á útsýnispallinum.

Er þetta raunhæf tillaga?

„Þetta er geggjuð hugmynd, að setja svona pall í 600 metra hæð. En ef geggjaðar hugmyndir koma ekki fram þá verða þær aldrei að veruleika. Staðreyndin er að geggjaðar hugmyndir hafa breytt heiminum.“

Bolungarvíkurkaupstaður hefur sótt um styrk í framkvæmdasjóð ferðamannastaða til þess að gera pallinn. Kostnaðaráætlun liggur ekki fyrir að svo stöddu.

DEILA