Atlögur gegn sjálfbærni Vestfjarða

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi.

Atlögur gegn sjálfbærni Vestfjarða

 

Enn á ný er blásið til atlögu gegn innviðauppbyggingu á Vestfjörðum og fyrirhugaðri Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum, sem VesturVerk er með í undirbúningi. Umhverfisverndarsamtökin Landvernd leiða atlöguna eins og stundum áður – nú í formi undirskriftasöfnunar þar sem stjórnvöld eru hvött til að friðlýsa Drangajökul og nágrenni hans, þ.m.t. svæðið þar sem virkjuninni er ætlað að rísa.

Einn af mínum uppáhalds greinahöfundum, Kolbrún Bergþórsdóttir, hoppar á þennan vagn Landverndar í nýjasta pistli sínum á vef Fréttablaðsins. Ég, sem er eiginlega alltaf sammála henni, verð núna að veita skrifum hennar andsvar.

Engin vísindaleg gögn virðast liggja til grundvallar þeirri tillögu að friðlýsa svæðið suður af Drangajökli, þar sem Hvalárvirkjun er ætlaður staður. Töluvert er til af rannsóknum um svæðið vestan megin við jökulinn, í Jökulfjörðum og á Snæfjallaströnd, en enginn hefur enn getað vísað í rannsóknir til stuðnings friðlýsingu á Ófeigsfjarðarheiðinni, þar sem virkjunarframkvæmdir eru fyrirhugaðar. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ekki sýnt fram á þær rannsóknir jafnvel þótt stofnunin hafi síðasta vor lagt til slíka friðlýsingu.

Í pistli sínum grípur Kolbrún til gífuryrða á borð við „græðgissjónarmið hinna virkjanaglöðu“ og „virkjanaóðir ráðamenn“. Hún ýjar að föðurlandssvikum og þjóðarskömm. Af orðavalinu má draga þá ályktun að hún sé almennt andstæðingur þess að virkja vatnsföll með sjálfbærum hætti svo úr verði hrein og græn orka. Hvalárvirkjun er einmitt slíkur virkjunarkostur. Með tilkomu Hvalárvirkjunar og nauðsynlegra tenginga og línulagna, verða Vestfirðir sjálfbærir í orkuframleiðslu og grunnurinn er lagður að frekari orkuframleiðslu í fjórðungnum því innviðauppbygging tengd Hvalárvirkjun gerir aðra minni virkjunarkosti við Ísafjarðardjúp mögulega.

Innviðir Árneshrepps munu sömuleiðis taka miklum stakkaskiptum á allra næstu misserum í tengslum við virkjunarframkvæmdir og verður hreppurinn fljótlega hringtengdur með sumarvegi, ljósleiðara og rafmagni gangi allar áætlanir eftir. Þær samfélagsumbætur sem fylgja virkjunarframkvæmdunum munu jaðra við byltingu í litlu og afskiptu sveitarfélagi. Aðgengi mun batna þannig að fleiri fá notið þessa einstaka hluta Íslands, atvinnutækifærum, t.d. í ferðaþjónustu, mun fjölga og  þannig renna styrkari stoðum undir búsetu í afskekktri byggð.

Þessar staðreyndir blasa við þeim sem vilja kynna sér málin og á þessum grunni hefur hreppsnefnd Árneshrepps stutt við virkjunaráform og greitt götu þeirra í allri skipulagsgerð. Á þessum grunni samþykkti Alþingi árið 2013 að virkjunin skyldi sett í nýtingarflokk rammaáætlunar 2. Tillaga að rammaáætlun 3 gerir sömuleiðis ráð fyrir virkjuninni. Fjórðungssamband Vestfirðinga hefur ályktað með verkefninu  á þessum grunni og nokkrar sveitarstjórnir á Vestfjörðum hafa ályktað sérstaklega því til stuðnings. Er það mat virkjunarandstæðinga að fólkið á bak við þessar lýðræðislegu ákvarðanir sé allt „virkjanaóðir ráðamenn“ og föðurlandssvikarar?

Umhverfisráðherra og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, lagði á það áherslu í viðtali á vef Vísis í gær í tengslum við hvalveiðar að við ákvarðanatöku stjórnvalda þurfi að byggja á fleiru en bara vísindaráðgjöf og þörf sé á að „líta meira til efnahagslegra og samfélagslegra áhrifa“. Þessum ummælum ráðherra ber að fagna sérstaklega enda hafa forsvarsmenn vestfirskra sveitarfélaga talað mjög fyrir því að tekið sé tillit til slíkra þátta þegar atvinnusköpun í fjórðungnum er til umræðu, einkum fiskeldi í sjó. Í efnhagslegu og samfélagslegu tilliti er Hvalárvirkjun skynsamlegur orkukostur á landsvæði þar sem afhendingaröryggi raforku er bágborið og svigrúm til að bæta fólki og fyrirtækjum við kerfið er nánast ekkert. Þess vegna gleðja orð ráðherra.

Á Vestfjörðum er lögð rík áhersla á sjálfbæra nýtingu náttúrunnar. Fjórðungurinn er eini heili landshlutinn sem er umhverfisvottaður af Earth Check og mikill metnaður hefur verið lagður í að finna jafnvægi milli verndar og nýtingar hinnar vestfirsku náttúru. Það er viðbúið að fræin falli í grýttan jarðveg þegar tillögur um friðun heilu landshlutanna eru settar fram, að því er virðist án allrar tilraunar til samráðs við ráðamenn í héraði og nánast í formi valdboðs að ofan, líkt og tillögur Náttúrufræðistofnunar um Drangajökulssvæðið. Nær væri að byrja samtalið við lýðræðislega kjörna fulltrúa íbúanna og finna sameiginlega fleti á verkefninu í stað þess að fleygja fram gífuryrðum og styðja þannig atlögurnar gegn sjálfbærni Vestfjarða.

Höfundur er upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði.

 

DEILA