Arnarlax: kaupin eru styrkleikamerki

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax  segir að kaup Salmar á hlutum Fiskisunds ehf og TM séu góð fyrir fyrirtækið. Það komi festu í eignarhaldið og stöðugleika í rekstur og uppbyggingu þess. Hann segir  að fyrirtækið sé enn í uppbyggingu  á lífmassa og að afla nýrra leyfa fyrir sjókvíaeldinu. Því séu tekjur ekki orðnar eins og að er stefnt og fyrirtækið enn gert upp með rekstrartapi. Engu að síður séu fjárfestar tilbúnir til þess að leggja mikið fé í fyrirtækið og tryggja uppbyggingu þess á Vestfjörðum. Sú staðreynd er því styrkleikamerki en ekki veikleikamerki að sögn Kjartans. Miðað við viðskiptin er Arnarlax metið á rúmlega 20 milljarða króna.

Það voru fyrrum eigendur Fjarðalax ehf, sem sameinaðist Arnarlax fyrir nærri þremur árum, sem knúðu á um sölu hluta sinna.  Samkvæmt heimildum Bæjarins besta vildu  þeir setja Arnarlax  á almennar hlutabréfamarkað þegar undirteknir annarra hluthafa um kaup voru dræm. Niðurstaðan varð því sú að Salmar keypti hlutina og á orðið meirihluta í Arnarlax ehf.

DEILA