Afrekssjóður HSV gerir samninga við Auði Líf og Þórð Gunnar

Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV, Þórður Gunnar Hafþórsson Vestra, Auður Líf Benediktsdóttir Vestra og Hjalti Karlsson formaður Vestra. Mynd: HSV.

Síðasta laugardag var skrifað undir styrktarsamninga Afrekssjóðs HSV við tvo efnilega íþróttamenn úr Vestra. Samningarnir fela í sér að Afrekssjóður greiðir mánaðarlega styrki til íþróttafólksins árið 2019. Í þetta skiptið voru gerðir samningar við Auðir Líf Benediktsdóttur frá blakdeild Vestra og Þórð Gunnar Hafþórsson hjá knattspyrnudeild Vestra. Undir samingana skrifuðu fyrir hönd HSV Ásgerður Þorleifsdóttir formaður og fyrir hönd Vestra Hjalti Karlsson formaður aðalstjórnar Vestra.

Auður Líf er 19 ára og ein efnilegasta blakkona landsins og hefur verið fastamaður í yngri landsliðum í blaki. Hún spilar með meistarflokki kvenna hjá Vestra í 1. deild. Árið 2018 keppti hún fyrir Íslands hönd á EM U19 sem haldið var í Úkraínu. Hún spilaði með B-landsliðinu í blaki á Ítalíu og aftur með U19 liðinu í Englandi. Markmið Auðar á árinu er að komast í A-landsliðið í blaki.

Þórður Gunnar er mjög efnilegum knattspyrnumaður sem þrátt fyrir að vera einungis 17 ára hefur spilað með meistarflokki Vestra síðustu tvö keppnistímabil. Siðustu tvö ár hefur hann verið valinn efnilegasti leikmaður Vestra og var útnenfdur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017. Þórður á að baki 8 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með U18 síðasta sumar. Á síðasta ári fór hann til reynslu hjá enska knattspyrnuliðinu Barnsley í vikutíma.

Þórður og Auður Líf.
Mynd: HSV
DEILA