Áform um friðlýsingu Dranga

Umhverfisstofnun hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

„Umhverfisstofnun, ásamt landeigendum jarðarinnar Dranga og sveitarfélaginu Árneshreppi hefur uppi áform um friðlýsingu jarðarinnar Dranga á Ströndum. Áform um friðlýsingu skulu kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga. Gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega.

Frestur til að skila athugasemdum við áformin er til og með 10. apríl 2019. Frekari upplýsingar á heimasíðu Umhverfisstofnunar, www.ust.is. Athugasemdum við áformin má skila á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með pósti til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík.“

Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps þann 9. janúar 2019 var tekið fyrir bréf frá Umhverfisstofnun  varðandi friðlýsingu Dranga og tilnefningu í starfshóp.

Bókað er í fundargerð:

„Upplýsingar liggja fyrir um að Fornasel ehf sem er skráður eigandi Dranga ákvað á aðalfundi sínum að fara í þessa vegferð með friðlýsingu.  Hreppsnefnd tilnefndi Arinbjörn Bernharðsson sem fulltrúa sveitarfélagsins í starfshópnum.“

DEILA