Við upphaf nýs árs

Frá stofnfundi Vestfjarðastofu.

Árið 2018 var baráttuár á Vestfjörðum eins og svo mörg önnur ár. Baráttan nú snýst um þann sjálfsagða rétt Vestfirðinga til sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda svæðisins. Það er ekki ný barátta en hún hefur breyst. Vestfirðingum svíður enn hve áhrif kvótakerfisins léku byggðirnar grátt án þess að stjórnvöld gripu til framsýnna mótvægisaðgerða og nýsköpunar til að efla sjávarbyggðirnar. Nú standa Vestfirðingar frammi fyrir stórum tækifærum sem haft geta mikil jákvæð áhrif á samfélögin á svæðinu.

Hafdís Gunnarsdóttir, formaður Vestfjarðastofu.
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Þau tækifæri felast í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, að rækta hina bláu akra fjarðanna og bjóða gestum að njóta einstakrar fegurðar svæðisins auk þróunar í hefðbundnum sjávarútvegi og hógværri nýtingu orkuauðlinda svæðisins.

Tækifærin sem felast í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum eru mikil. Hins vegar þarf að vanda það sem lengi á að standa þannig að áherslur Vestfjarðastofu hafa verið á að styðja við langtímahugsun við uppbyggingu arðbærrar atvinnugreinar. Þar kemur á óvart fálæti hins opinbera sem síður en svo hefur lagst á árarnar með Vestfirðingum við þá uppbyggingu. Áherslur í lagasetningu í fiskeldi virðast allar miða að því að hefta vöxt fiskeldis frekar en að mörkuð sé stefna til framtíðar sem tryggi sjálfbæran vöxt atvinnugreinarinnar. Ótrúlega lítill vilji virðist einnig vera á að horfa til þess að læra
af nágrönnum okkar Færeyingum og skoða það sem vel er gert þar. Lítill, en hávær hópur fólks sem sett hefur sig upp á móti uppbyggingu fiskeldis virðist eiga auðveldara með að ná eyrum og athygli ráðamanna en Vestfirðingar.

Fálæti hins opinbera gagnvart Vestfjörðum sést vel í því hve langa og stranga baráttu hefur þurft til að fyrirtæki í fiskeldi fái eðlilega afgreiðslu leyfisumsókna. Fálætið sést einnig berlega þegar kemur að umgjörð greinarinnar, rannsóknum, leyfismálum og eftirliti sem byggt er upp víða um land en alls ekki á Vestfjörðum. Nýlega auglýsti Matvælastofnun starf á sviði fiskeldis með starfsstöð á Selfossi. Hafrannsóknarstofnun hyggst í trássi við útgefnar yfirlýsingar fyrrum Sjávarútvegsráðherra byggja upp svið fiskeldismála í Reykjavík.

Innviðir svæðisins hafa setið á hakanum og staðan er sú í byrjun árs 2019 að enn sér ekki fyrir endann á endurbyggingu á 70 ára gömlum vegi um Gufudalssveit og því er suðursvæði Vestfjarða eina byggð landsins með yfir 1000 íbúa sem þarf að fara yfir illfæran malarveg hluta leiðarinnar til Reykjavíkur. Ótrúlegt er að hlusta á málflutning um að Vestfirðingar séu að njóta forréttinda í samgöngumálum eins og heyra mátti Kristján Má Unnarsson segja í þætti á Bylgjunni nýlega. Þá gleymist alveg forsagan þar sem Vestfirðir hafa, með áratuga aðgerðaleysi við uppbyggingu innviða, verið nánast dæmdir úr leik. Innviðir í raforkumálum hafa einnig setið á hakanum og hvorki framleiðsla eða dreifing á orku styður við uppbyggingu atvinnulífs og fjölgun íbúa.

Það gleymast einnig í þessari umræðu þau gríðarlegu verðmæti sem eru í húfi. Þannig getur markviss uppbygging fiskeldis skapað á Vestfjörðum yfir 1000 störf og 65 milljarða útflutningstekjur á ári. Uppbygging Vestfjarðavegar 60 mun skila okkur Íslendingum nýjum hringvegi, Hringvegi 2, sem verður nýr valkostur fyrir ferðamenn sem sækja Ísland heim og skapa verulega aukningu í tekjum af ferðaþjónustu á svæðinu. Ný kalkþörungaverksmiðja í Súðavík getur skapað allt að 30 störf og verulegar útflutningstekjur. Vestfirðir eru því sannarlega land tækifæranna á fjölmörgum sviðum – ef rétt er gefið.

Það voru því samgöngu-, orku og atvinnumál sem sett voru á oddinn fyrsta starfsár Vestfjarðastofu en byggðamálin í heild sinni eru einnig framarlega á verkefnalistanum enda hefur Vestfjarðastofa annast verkefnisstjórn fyrir verkefnið Brothættar byggðir bæði í Árneshreppi og á Þingeyri. Málefni Árneshrepps hafa verið mikið í fjölmiðlum á árinu. Þar ber hæst málefni væntanlegrar  Hvalárvirkjunar sem einnig hefur mætt mikilli andstöðu nánast sama hóps og sett hefur sig upp á móti uppbyggingu fiskeldis og veglagningar um Gufudalssveit. Svo langt var seilst í þeim slag að tilraun var gerð til að hafa áhrif á sveitarstjórnarkosningar með því að nokkur fjöldi fólks flutti lögheimili sitt í hreppinn í aðdraganda kosninga. Athygli vakti að sú misnotkun á lýðræðinu hafði ekki
nægilegt vægi til að minnst væri á það í annál RÚV fyrir árið 2018.

Það er þó þrátt fyrir allt svo að ef rétt er gefið er framtíð Vestfjarða björt. Einstök náttúra og umhverfi Vestfjarða er góður grundvöllur blómlegs atvinnu- og mannlífs. Vestfirsk samfélög eru varðmenn náttúrunnar og sveitarfélög á svæðinu hafa umhverfisvottun Earth Check. Fjölmörg fyrirtæki á svæðinu hafa að auki gæða- og umhverfisvottanir. Sjávarútvegurinn sem hefur um aldir verið grundvöllur atvinnulífsins verður það áfram en ræktun blárra akra, hógvær virkjun vatnsfalla og ferðaþjónusta sem rekin er á forsendum sjálfbærni og gæða eru þær stoðir sem Vestfirðingar vilja bæta við og byggja til framtíðar. Samfélög eiga rétt á að geta með sjálfbærum hætti nýtt auðlindir sínar og slík nýting er forsenda búsetu á svæðinu.

Við áramót tíðkast að líta um öxl og gera upp liðið ár. Árið 2018 var fyrsta starfsár Vestfjarðastofu sem var formlega stofnuð 1. desember 2017. Vestfjarðastofa er sjálfseignastofnun sem hefur það hlutverk að styðja einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög á Vestfjörðum við að ná árangri á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Vestfjarðastofa er í forsvari gagnvart stjórnvöldum, sinnir markaðssetningu og svæðasamstarfi á Vestfjörðum. Jafnframt er Vestfjarðastofu ætlað að
samþætta krafta landshlutans, fylgja eftir hagsmunum umhverfis, samfélags og efnahagslífs byggðanna og stuðla þannig að öflugum og sjálfbærum Vestfjörðum.

Á fyrsta ári starfseminnar hefur mikill tími og orka farið í að móta starfsemi nýrrar einingar og samþætta verkefni þeirra tveggja eininga, skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga og
Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, sem sameinuð voru undir merkjum Vestfjarðastofu.
Vestfjarðastofa annast nú rekstur skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga og stuðning á sviði atvinnuþróunar- og nýsköpunar.

Efst í huga framkvæmdastjóra eftir fyrsta árið er þakklæti til starfsfólksins sem lagt hefur á sig ómælda vinnu þetta árið. Án þeirra væri Vestfjarðastofa ekki til. Stjórn stofnunarinnar ber líka að þakka. Pétur Markan fylgdi Vestfjarðastofu úr hlaði sem fyrsti stjórnarformaðurinn og sló með framsýni og kjark þann tón sem fylgt hefur verið í starfseminni. Á Fjórðungsþingi í byrjun október var ný stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga kjörin og þar með fimm af níu stjórnarmönnum Vestfjarðastofu. Hafdís Gunnarsdóttir varð þá nýr stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga
og Vestfjarðastofu.

Við hefjum árið 2019 með bjartsýni og kraft að leiðarljósi.

Hafdís Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Vestfjarðastofu
Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

DEILA