Vesturbyggð . breyttar reglur um byggðakvóta

Eins og sagt var frá á bb.is í gær samþykkti bæjarráð Vesturbyggðar að gera breytingar á reglum um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár.

Sveitarfélaginu Vesturbyggð var úthlutað 149 tonna byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2018/2019 með eftirfarandi hætti til þriggja byggðarlaga:

  • Brjánslækur 15 þorksígildistonn
  • Patreksfjörður 46 þorskígildistonn
  • Bíldudalur 88 þorksígildistonn
  • Til viðbótar koma til úthlutunar kvóti, 68 tonn,  sem ekki gekk út á síðasta fiskveiðiári:
  • Brjánslækur 2,7 þorskígildistonn
  • Patreksfjörður 1,2 þorskígildistonn
  • Bíldudalur 63,8 þorskígildistonn

Alls verða því 217 tonn til úthlutunar.

Breytingarnar eru þær í fyrsta lagi er nóg að skip sé skráð í sveitarfélaginu til þess að það geti sótt um byggðakvóta og getur þá sótt um byggðakvóta í öðru byggðarlagi innan sveitarfélagsins en skipið er skráð. Það verður því ekki lengur bundið við byggðakvóta sem úthlutað er til eigin byggðarlags.

Í öðru lagi verður aflamarki úthlutað á skip og báta hlutfallslega eftir aflamagni sem landað hefur verið innan sveitarfélagsins með þeim hámörkum að hvert skip getur ekki fengið meira en 20% kvótans og þó aldrei meira en 25 tonn. Er þetta veruleg breyting frá því sem áður var. Í þriðja lagi verður skylt að landa byggðakvóta afla til vinnslu innan sveitarfélagsins en ekki endilega innan eigin byggðarlags.

Í greinargerð með tillögunum segir að með „framangreindum breytingum er stefnt að því að auka enn frekar möguleika til verðmætaaukningar og atvinnusköpunar í byggðalögum sveitarfélagsins en mælt er fyrir um í almennum reglum um úthlutun byggðakvóta. Breytingarnar falla einnig vel að megintilgangi byggðakvótans sem er að stuðla að aukinni atvinnusköpun innan sveitarfélagsins.“

 

DEILA