Vegagerðin fellur á umferðaröryggisprófi

Vegagerðin birti frumniðurstöður sínar á umferðaröryggismælingum veglína um Reykhólasveit. Ekki kemur þar á óvart að ólagður og óhannaður vegur um Teigskóg og uppfærsla Reykhólasveitarvegar með brú yfir Þorskafjörð (A3) komi þar mjög vel út. Það sem kemur á  óvart, og er uggvænlegt, er hversu illa eini vegurinn sem þegar er til, Reykhólasveitarvegur 607, kemur út úr þessu mati. Reykhólasveitarvegur er hluti af stofnvegakerfi landsins samkvæmt skilgreiningu vegagerðarinnar:

,, Stofnvegir (S) Stofnvegir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í
samgönguáætlun hverju sinni. Til stofnvega teljast vegir sem tengja saman byggðir landsins. Við það vegakerfi sem þannig fæst skal tengja þéttbýlisstaði með um það bil 100 íbúa eða fleiri. Til   stofnvega teljast einnig umferðarmestu vegir sem tengja saman sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Einnig vegir á hálendinu sem mikilvægir eru fyrir flutninga og ferðaþjónustu. Þar sem stofnvegur endar í þéttbýli skal hann ná að fyrstu þvergötu sem tilheyrir gatnakerfi þéttbýlisins og enda þar. Þó er heimilt að láta stofnveg ná til flugvallar og hafnar sem mikilvæg eru fyrir ferðaþjónustu og flutninga.”

Fyrir stofnvegi er einn flokkur með umferð undir 3000 bíla hann er C8, vegagerðin skilgreinir hvaða kröfur eru gerðar fyrir C8 svona:

,,Vegir með einni akbraut og tveimur akreinum og öxlum Breidd 8 m. ÁDU ≤3.000 (dreifbýli, flatlendi)”

Báðar skilgreingar teknar af heimasíðu Vegagerðarinnar
http://www.vegagerdin.is/vegakerfid/skipting-i-vegflokka/
http://www.vegagerdin.is/vegakerfid/vegtegundir/

Sömu kröfur fyrir Reykhólsveitarveg og Vestfjarðarveg 60

Ljóst er að sömu staðlar og því sömu kröfur eru gerðar til Reykhólasveitarvegar og
Vestfjarðarvegar 60. Það þýðir því lítið að benda á umferðartölur sem eru undir 3000 bílum
ÁDU, báðir vegirnir eru stofnvegir með umferð undir 3000 bílum ÁDU og því C8. Á þetta hefur sveitarstjórn Reykhólahrepps margsinnis bent og einnig að Reykhólasveitarvegurinn og Vestfjarðarvegur að Gilsfjarðarbrú uppfylla ekki kröfur um stofnvegi. Þá höfum við bent á það, sama hvaða leið verður valin fyrir Vestfjarðarveg 60, að uppfæra þurfi veginn frá Gilsfirði að  Reykhólum. Þarna verður vegagerðin að girða sig í brók, ekki ætlum við að bíða eftir slysum hvort sem það er á Reykhólasveitarveginum eða Vestfjarðarvegi að Gilsfjarðarbrú. Nú nefni ég aðeins þá vegi sem mest hafa verið ræddir og eru innan Reykhólahrepps, en við vitum öll að það eru fleiri kaflar sem þarf að uppfæra á Vestfjarðarvegi 60 og suma mun fyrr en aðra.

Allar leiðir fullgildar

Það er Reykhólasveitarvegur sem fellur í öryggismati Vegagerðarinnar, engin teiknuð leið heldur vegur sem er í fullri notkun. Vegur þar sem skólabörn eru keyrð um tvisvar sinnum á dag 180  daga yfir vetratíman eða 360 sinnum. Þetta umferðaröryggismat er því rauða spjaldið á Vegagerðina, þeir eru veghaldarar og eiga að sjá til þess að vegir uppfylli þá staðla og þær öryggiskröfur sem settar eru. Þessvegna er ekki hægt að segja annað en Vegagerðin hafi kolfallið á þessu umferðaröryggisprófi.

Hefur umferðaröryggismatið áhrif á leiðarval?

Þetta umferðaröryggismat gæti haft mikil áhrif á hvaða leið verður valin um Reykhólahrepp fyrir Vestfjarðarveg 60. Það þarf alltaf að uppfæra Reykhólasveitarveg miðað við staðla
vegagerðarinnar, sama hvaða leið er valin, það staðfesti umferðaröryggismatið svo um munaði.
Spurningin er hvort vegagerðin ætlar að uppfæra Reykhólasveitarveg með framkvæmdum um Þ-H leið, R leið eða D2. (Uppfærslan er til staðar við A3). Staðlarnir og skilgreiningarnar eru vegagerðarinnar og hún ber ábyrgð á því að vegir séu aðlagaðir að þeim og hún ber ábyrgð á öryggi vega, líka Reykhólasveitarvegs. Ég fagna því þessari umferðaröryggisgreiningu, hún sýnir svart á hvítu fram á nauðsyn þess að uppfæra Reykhólasveitarveg. Ég vil öruggan Reykhólasveitarveg og kalla því strax eftir aðgerðaráætlun frá Vegagerðinni varðandi uppfærslu á honum.

Ingimar Ingimarsson oddviti Reykhólahrepps