Þorrablótin að byrja

Það er farið að huga að þorrablótunum víða á Vestfjörðum. Í Bolungavík og á Patreksfirði er venja að halda þorrablótið á fyrsta laugardegi í þorra og líklega eru þau fyrstu blótin.

Á Patreksfirði er það kvenfélagið Sif sem heldur blótið.

En í Bolungavík er annar siður. Þar er það hjóna og sambúðarfólk sem stendur að blótinu og er það í meginatriðum lokað öðrum. Eiginkonurnar halda blótið og bjóða sínum maka.

Þegar er búið að tilkynna um blótið á síðu Bolungarvíkurkaupstaðar og það kynnt með þessum orðum:

Á blótinu reiða trogfélagar fram sinn eigin þorramat og drukk og sýndir eru leikþættir, samdir og leiknir af nefnd sem konurnar velja árlega til að standa fyrir blótinu.

Ætlast er til að konur mæti í upphlut eða peysufötum og karlar í hátíðarbúningi eða dökkum jakkafötum með hálstau.

Þorrablótið er haldið fyrsta laugardag í þorra en þorri hefst með bóndadegi sem árið 2019 er föstudagurinn 25. janúar.

Þorrablótið 2019 er því haldið laugardaginn 26. janúar.