Súðavík:áfram unnið að Hvanneyrardalsvirkjun

Á fundi skipulagsnefndar Súðavíkurhrepps í síðustu viku var farið yfir virkjunarkosti í sveitarfélaginu. Það eru Hattardalsvirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun sem eru til athugunar.

Deiliskipulag vegna Hattardalvirkjunar var lagt fram og samþykkti nefndin það og sveitarstjórnin staðfesti það svo í framhaldinu og verður skipulagið auglýst.

Litlar upplýsingar eru um Hattardalsvirkjun, sem nefnd er smávirkjunarkostur, en verkfræðistofna Vatnaskil gerði skýrslu fyrir Orkustofnun um langæi rennslis og skilaði henni í nóvember 2018.

Mynd af áhrifasvæði Hattardalsvirkjunar.

Hvanneyrardalsvirkjun 11 MW

Varðandi Hvanneyrardalsvirkjun í Ísafirði  er gert ráð fyrir áframhaldandi undirbúningi
hennar. Settir verði inn vegir og efnistökusvæði þannig hægt verði að halda áfram rannsóknum á virkjunarsvæðinu.

Það er Vesturverk ehf sem hefur rannsóknarleyfi fyrir Hvanneyrardalsvirkjun. Um hana segir á vef Vesturverks:

„Gert er ráð fyrir að Hvanneyrardalsvirkjun rísi í botni Ísafjarðar við Ísafjarðardjúp í minni Hvanneyrardals og Torfdals. Virkjunarsvæðið hefur verið rannsakað að einhverju leyti af hálfu Orkustofnunar vegna Glámuvirkjunar. Uppsett afl virkjunarinnar er áætlað um 11MW og orkuvinnslugeta 80 GWh/ári. Að óbreyttu er Hvanneyrardalsvirkjun af þeirri stærðargráðu að hún mun þurfa að fara fyrir rammaáætlun IIII.“

Þá segir einnig að:

„gert ráð fyrir að virkja aðrennslissvæði Hvanneyrardalsvatns og Miðdalsvatns á vatnasviði Ísafjarðar með niðurgrafinni þrýstipípu og ofanjarðarstöðvarhúsi í botni Ísafjarðar, á eystri bakka árinnar skammt ofan ármóta við Torfadalsá, þar sem áin er í um 40 m y.s.

Til viðbótar yrði veitt til Miðdalsvatns með skurðum úr vötnum sunnan þess. Einnig er hugsanlegt að veita til vatnsins frá Tröllárvatni á vatnasviði Vattardalsár. Það verður þó varla gert með öðru en um 1,7 km löngum jarðgöngum. Göngin yrðu lágmarksgöng um 16 m2 ef þau yrðu gerð með hefðbundnum hætti en hugsanlega mætti heilbora mun þrengri göng þarna á milli. Einnig yrði þá veitt vatni til Tröllárvatnsins úr vötnum þar fyrir austan sem eru á vatnasviði Skálmardalsár. Til þess þarf eingöngu litla skurði og fyrirstöðu.“