Rétta leiðin…..

Steinþór Bragason, Ísafirði.

Það hefur verið mikið skrifað og rætt um samgöngur í Reykhólasveit varðandi a-ö leiðir framhjá og í gegnum Reykhóla. Í þessu samhengi er mjög mikilvægt að skoða hvaða áhrif samgöngur hafa haft á uppbyggingu og þróun byggðar og atvinnu í landinu.
Við skulum láta hugann reika:

• Hvernig væri staðan í Borgarnesi ef ekki hefði komið Borgarfjarðarbrú….

• Hvernig væri staðan á Akranesi ef ekki hefðu komið til Hvalfjarðargöng….

• Hvernig væri staðan á Siglufirði ef ekki hefðu komið Héðinsfjarðargöng….

• Hvernig væri staðan á Siglufirði ef það hefðu bara verið gerð göng í Héðinsfjörð, sett keðjustæði við fyrsta bústaðinn í Héðinsfirði og fjallvegur yfir á Siglufjörð….

• Hvernig væri staðan á Súgandafirði og Flateyri ef ekki hefðu komið Breiðadalsgöng….

• Hvernig væri staðan í Bolungarvík ef ekki hafi komið til Bolungarvíkurgöng….

• Hvernig væri staðan á Austfjörðum ef uppsjávarveiðar væru bannaðar….

• Hvernig væri staðan í Reykjavík ef öll opinber starfsemi væri bönnuð á stór Reykjavíkur svæðinu…

Ef við skoðum þróunina á Vestfjörðum seinustu árin hafa Vestfirðingar gengið í gegnum miklar sviptingar. Heilu samfélögin hrundu í litlu byggðunum þegar veiðiheimildirnar fóru úr byggðunum og réttur fólks sem hafði atvinnu af fiskveiðum missti vinnuna þar sem þeim var ekki heimilt að nýta auðlindina sem er við bæjardyrnar. Þetta er líklega einsdæmi í heiminum.

En sem betur fer höfum við Vestfirðingar átt eldhuga sem vilja búa til atvinnu á svæðinu og byggja upp samfélag í sátt við menn og náttúru. Fystu vaxtabroddurinn sem við sáum blómstra hér var Kalkþörunarverksmiðjan sem komst af stað með fjármagni frá Írlandi því innlendir sjóðir og lánastofnanir sáu sér ekki fært að styðja við þetta fyrirtæki. Nú hefur þetta fyrirtæki náð að blómstra með takmarkaðan aðgang að rafmagni.

Fleiri voru með í uppbyggingunni. Við sáum móta fyrir Laxeldi sem hefur verið haldið niðri af embættimannakerfinu með töfum á leyfum og burðaþolsmati og fyrirtækjum ekki svarað þannig að tugir ára hafa farið í súginn við uppbyggingu svæðisins og norðarverðum Vestfjörðum þannig haldið í gíslingu. Það litla eldi sem komið var breytti hugsun margra í bjartsýni á framtíðina sem lýsti sér í því að við sáum ungafólkið koma aftur, farið var að gera upp hús og meira að segja var farið að sjást nýbyggingar sem ekki hafa sést í tugir ára.

Þetta þótti nú ekki nógu gott allsstaðar og því var stofnuð enn ein stofnunin Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem var auðvitað sett í Skuggasundið (allt í lagi að skapa störf þar) og hlutverk hennar var að fella leyfi til laxeldis úr gildi á öllum Vestfjörðunum. Í kjölfarið stöðvaðist öll atvinnuuppbygging, það varð uppnám í framvindu atvinnumála á Vestfjörðum. Óvissan algjör. Það má líkja þessu við kjarnorkuárás sem þurrkar út allar vonir og við sitjum í óvissunni þar sem geislaviknin (engin von um úrlausn) er það sem eftir situr og hindrar það að hægt sé að fara af stað aftur. Óvissa er það versta sem byggðalög geta lent í.

Eru þetta eðlilegar aðstæður? Hver er ábyrgðin hjá þessum 11 stofnunum sem veitt höfðu leyfin? Í mínum huga þá ættu þessar stofnanir að sæta ábyrgð með því að þær allar yrðu fluttar á Vestfirði sem miskabætur fyrir illa og seint unnin störf.

Hver á að fjarfesta við þessar aðstæður? Þarf ekki aukið skattfé til uppbyggingar á Íslandi. Miðað við umræður í fjörmiðlum virðist vanta fjármagn í alla tekjustofna Ríkisins.
Hvernig stendur á þessu. Við Vestfirðingar höfum ekki farið fram á að fá einhverja sér þjónustu til atvinnu uppbyggingar. Það hafa ekki verið reystar virkjanir, það hafa ekki verið gerð nein kolagöng, það hafa ekki verið gefnir neinir afslættir af opinberum gjöldum til að koma starfsemi af stað. Eins og þetta snýr að Vestfirðingum virðist vera bannað að nota skattfé til uppbyggingar á Vestfjörðum.

Tökum eitt dæmi. Það er rukkaður flugvallaskattur af Keflavíkurflugvelli og nær allur sá peningur er notaður af Ísavía til uppbyggingar við Keflavíkurfluvöll. Er það eðlilegt?
Það er nær 60% af öllum bolfiski veiddur á Vestfjarðamiðum og það er búið að rukka útgerðir um 70 milljarða síðan veiðigjöldin voru sett á. Þessir peiningar hafa ekki skilað sér við atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum. Er það eðlilegt???

Nú verður áhugavert að sjá nýjasta atvinnusprotann á Vestfjörðum sem er laxeldið. Áfram heldur embættismannakerfið þessari atvinnugrein í algerri óvissu með því að vinna að frumvarpi um að skattleggja þessa grein áður en hún nær undir sig fótunum. Þetta er ekki eðlileg leið að mínu mati. Ef það er til einhver jafnræðisregla þá hlýtur skattlagningin að verða eftir þar sem hún er tekin. Er það ekki eðlilegt?

Það væri gaman að fá svör hjá kjörnum fulltrúm okkar hvernig standi á því að það má ekki búa til atvinnutækifæri-, framleiða rafmagn né bæta samgöngur á Vestfjörðum. Hvað er til ráða? Hvaða tækifæri eigum við að nýta? Á sama tíma er okkur sagt að nýta eigi tækifærin. Hér er eitt tækifæri sem má nefna.

 


R leiðin

Ef við ætlum að nýta öll tækifærin þá tel ég að Rétta leiðin fyrir veglagningu í Reykhólasveit sé R-leiðin Skálanes Reykjanes. Það sem ber að hafa í huga þegar sú leið er valin er hvort eigi að virkja fjörðinn eða ekki. Ef virkja á fjörðinn skal farið yfir. Væri þetta fyrsti áfanginn í 79 km styttingu leiðarinnar. Með þessari leið væri verið að vinna að því að gera láglendisveg frá Reykjavík að Klettshálsi.

Með því að fara þessa leið næst:

• Láglendisvegur milli Klettsháls og Svínadals…

• Reykhólar komast í samband við Vestfjarðaveg….

• Öll þjónusta við sveitirnar í kring stórbætist….

• Öryggisþættir við umferðina stórbætast….

• Viðbragstími björgunaraðila styttist til muna….

• Reykhólar verða betur tengdir við Vestfirði….

• Möguleikar á ferðaþjónustu í kringum Reykhóla mun stóraukast….

• Atvinnusvæðið stækkar….

• Vetrarferðaþjónusta stór eykst á svæðinu….

• Möguleiki að virkja Þorskafjörðinn með sjávafallavirkjun og þar með kolefnisjafna veginn sem gæti verið sá fyrsti í heiminum…..

• Gera má ráð fyrir 20-40% aukningu á umsvifum í kringum Reykhóla….

• Gera má ráð fyrir 500.000.000 kr sparnaði á ári fyrir vegfarendur á þessari leið miðað við núverandi akstur….

 


Annar áfangi

Annar áfangi væri svo vegur frá Reykhólum að Skarðströnd og vegur yfir eða undir Hvammsfjörð. Það á það sama við og í R – leiðinni. Ef virkja á firðina þá skal farið yfir en ef ekki þá skal farið undir. Með tilkomu þessara leiða er búið að stytta leiðina um 79 km, og láglendisvegur kominn frá Reykjavík að Klettshálsi. Með þessu átaki væri hægt að lækka verulega flutningskostnað á Snæfellsnes, Reykhóla og til Vestfjarða. Til að byrja með þá væri búið að stytta leiðina um 79 km. Svo væri hægt að gefa undanþágu á flutningabílana að þeir mættu setja vagn aftan í treilervagninn þannig að vagnarnir sem færu á nesið og Reykhólana yrðu skildir eftir þegar bílarnir héldu síðan áfram vestur. Það væru nú alveg sanngjarnt að flutningsaðilinn og notandi myndu skipta sparnaðinum á milli sín.

Með því að bæta þessari leið við næðist:

• Vegalendin myndi styttast um 79 km….

• Umferðaöryggi myndi stóraukast….

• Brattabrekka og Svínadalurinn myndi detta út sem aðal leiðarval….

• Láglendisvegur frá Reykjavík að Klettshálsi….

• Myndi stuðla að lækkun flutningskostnaðar….

• Myndi stórauka ferðaþjónustu á Snæfellsnesinu, Dölunum og á Vestfjörðunum….

• Samvinna Snæfellsness, Reykhóla, Dalamanna og Vestfirðinga myndi stóraukast…

• Reyhólar yrðu líklega tengipunktur fyrir Vestfirðina….

• Möguleiki að virkja Breiðafjörðinn og Hvammsfjörðinn með sjávafallavirkjun og þar með kolefnisjafna samgöngurnar….

• Atvinnusvæðið myndi margfaldast og tekjur ríkisins stóraukast við þessa aðgerð….

• Væri kominn grundvöllur fyrir heilsárs ferðaþjónustu þar sem láglendisvegurinn lægi….

• Gera má ráð fyrir 2.500.000.000 kr sparnaði á ári fyrir vegfarendur á þessari leið miðað við núverandi akstur. Hann gæti hæglega þrefaldast….

• Gera má ráð fyrir 25 – 30 % eldsneytissparnaði á vöruflutingabíl….

Til að ná framförum þarf að hugsa til framtíðar. Þessi framkvæmd getur ekki beðið og því þarf að fara að taka ákvarðanir svo að hjól atvinnulífsins stoppi ekki.
Við Vestfirðingar þurfum svo að hugsa okkar gang. Við þurfum að þora að ræða málin og hlusta á rökstuðning, málefni snúast ekki alltaf um það að vera með eða á móti. Það sem skiptir máli er af hverju við veljum einn kostinn umfram annan. Við þurfum líka sjálf að hugsa til framtíðar. Ef ástandið fer ekki að lagast og skatttekjum ríkisins jafnara skipt þá þurfum við alvarlega að fara að hugsa út í lausnir sem henta okkur og styðja hvort annað í að framkvæma þær.

Lifið heil, Steinþór Bragason, Ísafirði.

DEILA