Landsréttur: Verkalýðsfélag Vestfirðinga áfrýjar

Þann 24. janúar næstkomandi verður á dagskrá Landsréttar áfrýjun Verkalýðsfélags Vestfirðinga á máli félagsins gagnvart Hraðfrystihúsinu Gunnvöru hf. Héraðsdómur Vestfjarða sýknaði útgerðina þann 9. mars 2018 af kröfum Verkalýðsfélagsins sem ákvað að áfrýja málinu.

Málsatvik eru þau að Verkalýðsfélagið f.h. áhafnar Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 stefndi útgerðinni til greiðslu á kauptryggingu í samræmi við ákvæði kjarasamninga fyrir tímabilið 29. júní til 30. júlí 2016 en þá var skipinu ekki haldið til veiða og það var í slipp í Reykjavík.

Deilt er um það hvort áhöfninni hafi verið tilkynnt um fyrirhugað veiðistopp, hvort og hvenær það yrði. Dómarinn taldi að ákvæði kjarasamningsins tryggði ekki skipverjum kauptryggingu án vinnuframlags heldur nái ákvæðið aðeins til þess þegar skipverjar fylgi skipinu til viðgerðar utan heimahafnar. Telur því dómarinn að áhöfnin haldi ekki kauptryggingu nema að bjóða fram vinnukrafta sína og í málinu sé ekki byggt á því að svo hafi verið og sýknaði dómarinn því stefnda. En engu að síður var ákveðið í dómnum að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu.

Eins og fyrr segir hefur málinu verið áfrýjanð til Landsréttar og verður það tekið fyrir þann 24. janúar 2019.

DEILA