Kalkþörungafélagið endurnýjar raforkusamninginn við ON

Íslenska kalkþörungafélagið hefur endurnýjað raforkusamning sinn við Orku náttúrunnar;
ON. Nýr samningur, sem var undirritaður í desember, er til fimm ára í stað tveggja eins og
fyrri samningur og tók samningurinn gildi þann 1. janúar. Eins og áður annast Orkubú
Vestfjarða dreifingu raforkunnar.

Á ársgrundvelli kaupir Kalkþörungafélagið um 29 GWh og er fyrirtækið lang stærsti
viðskiptavinur ON á Vestfjörðum. „Við erum mjög ánægð með það farsæla samstarf sem við höfum átt undanfarin fjögur ár við Kalkþörungafélagið og fögnum því mjög framhaldi
samstarfsins. Þetta er vaxandi fyrirtæki og okkar stærsti viðskiptavinur í fjórðungnum,“ segir Stefán Fannar Stefánsson, sölu- og viðskiptastjóri hjá ON.

Að sögn Halldórs Halldórssonar, forstjóra Íslenska kalkþörungafélagsins ehf., dótturfélags
Marigot hér á landi, hefur raforkunotkun í starfseminni á Bíldudal aukist undanfarin misseri
samfara aukinni framleiðslu. „Það hefur verið gott að eiga viðskipti við ON, verðið er
hagstætt og við lok fyrri samning sem rann út um áramótin töldum við ekki ástæðu til
annars en að framlengja það með nýjum og lengri samningi, sem tryggir okkur alla þá
raforku sem við munum þurfa á að halda á samningstímanum, raforku sem er auk þess
eingöngu vottuð og framleidd með umhverfisvænu vatnsafli eða gufuaflsvirkjunum,“ segir Halldór.