Ísafjarðarbæ: þjónustusamningur við Vesturafl

Samstarfsamningur milli Ísafjarðarbæjar og Vesturafls um Fjölsmiðju Vesturafls er tilbúinn til undirritunar og verður afgreiddur á næsta fundi bæjarstjórnar. Samningurinn er til þriggja ára frá og með 1. janúar 2019. Annars vegar er Fjölsmiðjunni veittur rekstrarstyrkur og hins vegar eru greidd laun nema í Fjölsmiðjunni.

Samningur þessi tekur til greiðslu Ísafjarðarbæjar vegna þjónustu Fjölsmiðjunnar við einstaklinga sem til hennar eru sendir af sveitarfélaginu.

Þjálfunarstyrkur

Ísafjarðarbær greiðir út þjálfunarstyrk til nema í samræmi við reglur Fjölsmiðjunnar um mætingu og vinnuframlag hverju sinni. Þjálfunarstyrkur nema er ákvarðaður af sveitarfélaginu í september ár hvert fyrir komandi ár, í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun.

Þjónustustyrkur

Sveitarfélagið greiðir þjónustustyrk sem ætlað er að standa undir þjónustu og kröfum samkvæmt 2. grein samnings þessa.
Þjónustustyrkur ársins 2018 skal vera kr. 1.661.843,- og breytist árlega.

Velferðarnefnd lýsir ánægju sinni með samninginn og leggur til við bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar að hún samþykki hann. Gert er ráð fyrir styrknum í fjárhagsáætlun ársins 2019.

DEILA