Þann 6. desember vísað Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál frá kæru sem nefndinni hafði borist 12. mars 2018. Kært var að Orkustofnun hafði rúmu ári fyrr eða 31. janúar 2017 framlengt um tvö ár rannsóknarleyfi til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði vegna áforma um Hvalárvirkjun. Gildir rannsóknarleyfið nú til 31. mars 2019.
Kærandi var einn eigenda jarðarinnar Seljanes við Ingólfsfjörð.
Ástæður leyfishafa, Vesturverks ehf, fyrir ósk sinni um framlenginu rannsóknarleyfisins voru meðal annars þær að rannsóknir sem gera þarf hafi leyfishafi ekki talið forsvaranlegar vegna kostnaðar fyrr en afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar lægi fyrir. Framkvæma þarf kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfesta magns jökulruðnings með greftri könnunarhola.
Kærandi benti á að vegurinn norður lægi um landareign hans og flytja þarf vélar og tæki vegna rannsóknanna og styrkja veginn til þess að geta borið flutningana. Liggi vegurinn skammt frá húsum á Seljanesi og auk þess sé útsýni frá Seljanesi til Hvaláróss og yfir á Ófeigsfjarðarheiðina.
Orkustofnun, sem veitti leyfið, benti hins vegar á að fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar væru „ekki á landi kæranda og snerti hvorki vatnasvið jarðarinnar Seljaness né Dranga og skerði í engu hagnýtingarmöguleika eigenda þessara jarða. Þá sé og rétt að geta þess til skýringar að beinn og óbeinn eignarhluti kæranda í nefndum jörðum virðist samkvæmt skráðum heimildum vera innan við 10% í hvorri jörð fyrir sig og að sameigendur hans, sem fari þá með meira en 90% hagsmuni í hvorri jörð fyrir sig, hafi ekki mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum.“
Úrskurðarnefndin hafnaði því að kærandi ætti hagsmuni að gæta og hann hefði því ekki kærurétt. Vegurinn F649 sé landsvegur og umferð um hann frjáls. Tímabundið ónæði af umferð vegna væntanlegrar rannsóknar veiti kæranda ekki þá stöðu að hafa lögvarða hagsmuni.
Kæran barst í kjölfar þess að úrskurðarnefndin vísað frá þann 28. febrúar 2018 eða 12 dögum áður, kæru frá Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands um einmitt það, sama framlengingu á rannsóknarleyfinu um tvö ár.
Komst Úrskurðarnefndin að þeirri niðurstöðu að Landvernd ætti ekki kærurétt í málinu. Benti nefndin á í úrskurði sínum að rannsóknarleyfið fæli ekki í sér nein leyfi til framkvæmda heldur þvert á móti yrði síðar að sækja um framkvæmdaleyfi og eftir atvikum láta vinna umhverfismat stæði vilji til þess að ráðast í framkvæmdir að rannsóknum loknum og þá væri opið fyrir kærur.