Hámarkshraði við einbreiðar brýr lækkaður

Einbreið brú. Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin hefur tilkynnt um lækkun á hámarkshraða við einbreiðar brýr þar sem umferð er meiri en 300 bílar á sólarhring að jafnaði yfir árið. Um er að ræða um 75 einbreiðar brýr, um helmingur á Hringvegi. Þá verður viðvörunarskiltum breytt og einnig bætt við undirmerki á ensku á viðvörunarskiltum. Kostnaður við merkingar er áætlaður um 70-80 milljónir króna.

Vegagerðin hefur einnig ákveðið að yfirfara hámarkshraða á þjóðvegum í dreifbýli
og breyta honum til lækkunar reynist þess þörf eða fjölga merkingum um
leiðbeinandi hraða. Þá verður gerð úttekt á vegriðum á öllum brúm á stofn- og
tengivegum. Lagfæringum verður forgangsraðað eftir ástandi brúnna og aðstæðum
á hverjum stað eftir því sem svigrúm er í fjárheimildum.

Á Vestfjörðum eru 54 brýr sem  ná ekki 6 metra breidd. Af þeim voru samkvæmt yfirliti í febrúar 2016 aðeins tvær brýr sem náðu 300 bíla ársdagsumferð. Það er Flateyrarvegur með brú á Bjarnardalsá ( 314 bílar) og Innstrandarvegur sunnan Hólmavíkur við Víðidalsá ( 305 bílar).

Þessar 54 brýr flokkast þannig að helmingurinn eða 27 brýr er á Vestfjarðavegi ( vegi 60), 6 brýr eru á 61 Djúpvegi og 3 á Barðastrandarvegi ( nr 62). Á Bíldudalsvegi (63) eru 8 brýr sem eru mjórri en 6 metrar og í Strandasýslunni eru 10 brýr á Innstrandarvegi ( nr 68).

DEILA