Fundir í dag á Alþingi vegna Reykhóla

Í dag voru fundir í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis með fulltrúum sveitarfélaga á sunnanverðum Vestfjörðum vegna vegagerðar um Gufudalssveit. Fyrst voru kallaðir til fulltrúar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps og á eftir þeim fulltrúar Reykhólahrepps.

Hins vegar voru fulltrúar sveitarfélaga á norðanverðum Vestfjörðum afboðaðir og koma því ekki til fundar í dag.

Eftir fundinn sendu fulltrúar Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu:

Fulltrúar bæjarstjórnar Vesturbyggðar og sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag til að fara yfir þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna vegalagningar Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Á fundinum var komið á framfæri við nefndina áherslum og hagsmunum sveitarfélaganna um mikilvægi þess að farið verði í vegabætur á Vestfjarðavegi strax. Var nefndin upplýst um að frekari tafir á vegalagningu geti haft alvarleg áhrif fyrir Vestfirði. Þá voru nefndarmenn upplýstir um þau samskipti sem sveitarfélögin tvö ásamt Fjórðungssambandi Vestfjarða hafa átt við sveitarstjórn Reykhólahrepps á síðustu mánuðum. Fulltrúar sveitarfélaganna tveggja lögðu áherslu á að áfram yrði unnið með Þ-H leiðina, þar sem undirbúningur vegna þeirrar vegalagningar er lengra á veg komin en undirbúningur vegna R-leiðarinnar en Vestfirðingar geta ekki beðið lengur eftir fullnægjandi samgöngubótum. Á fundinum voru ekki teknar ákvarðanir en ljóst er að skera þarf á þann hnút sem enn og aftur er kominn upp í þessu máli.

DEILA