Flateyri : fiskvinnslan rædd á fundi bæjarráðs

Málefni fiskvinnslunnar á Flateyri voru til umræðu á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar. Til fundar komu aðilar fiskvinnslu og fiskveiða mættu til að ræða stöðu fiskveiða og fiskvinnslu á Flateyri eins og segir í bókun bæjarráðs. Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi vildi ekkert segja um efni fundarins og vísaði á formann bæjarráðs Daníel Jakobsson. Daníel sagði að tilefni fundarins hefði verið reglur um úthlutun almenna byggðakvótans og farið hefði verið yfir þær á fundinum. Benti Daníel á að 142 tonna byggðakvóti hefði ekki nýst á síðasta fiskveiðiári og kæmi til endurúthlutunar á þessu tímabili.

Bókað var að „bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna málið áfram í samræmi við umræður á fundinum eins hratt og mögulegt er.“

Á fundinum voru forsvarsmenn West Seafood ehf á Flateyri og útgerðar Blossa ÍS.

West Seafood fær mikinn byggðakvóta, bæði frá Fiskistofu og frá Byggðastofnun og hefur samning um Byggðastofnunarkvótann til 2023/24. Samningurinn var gerður 2015 við Fiskvinnslu Flateyrar og 8 útgerðir. Samkvæmt heimildim Bæjarins besta hafa allar útgerðir gefist upp á samstarfinu og eru hættar að veiða fyrir West Seafood nema útgerð Blossa ÍS. Auk Blossa ÍS eru tveir bátar í eigu West Seafood sem veiða fyrir fiskvinnsluna.  Nokkrir útgerðarmenn, sem aðild áttu að samstarfinu hafa tjáð Bæjarins besta að þeir hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna þess. Þá herma heimildir Bæjarins besta að erfiðlega hafi gengið að fá reikninga greidda hjá West Seafood.

DEILA