Ferðaþjónustan drífur áfram hagvöxtinn

Í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar er fjallað um hagvöxt og fjárfestingu í þjóðfélaginu. Fram kemur að meginskýringin á hagvexti á árunum 2008 til 2016 er vöxtur í þjónustugreinum: Verslun, hótelum og veitingahúsum, samgöngum og fjarskiptum. Greinarnar snúast að mismiklu leyti um ferðamenn.

Vöxtur í þjónustu við ferðamenn vegur miklu þyngra á höfuðborgarsvæðinu en utan þess, en þær ráða þó mestu um hagvöxt á Suðurnesjum, þar sem Keflavíkurflugvöllur hefur þanist út, og á Suðurlandi, en flestir erlendir ferðamenn fara um það. Allan hagvöxt á höfuðborgarsvæðinu frá 2008 til 2016 og mestallan vöxt á Suðurnesjum og á Suðurlandi má skýra með vexti í „ferðaþjónustugreinum“.

Útlendingar manna nýju störfin

Bent er á í skýrslunni að undanfarin þrjú ár hafi útlendingar tekið að sér nær öll ný störf í veitinga- og gistihúsarekstri.  „Þar ræður sjálfsagt hvort tveggja, að ferðamönnum fjölgaði mjög hratt á tímabili og að kjör, sem boðin eru, freista ekki Íslendinga“ segir þar. Ferðamenn setja lítið mark á atvinnulíf á Vestfjörðum og Austurlandi.

Iðnaður og fiskeldi

Næst á eftir ferðaþjónustunni er það iðnaðurinn sem vex sem atvinngrein. Hann dafnar um allt land en skiptir mestu máli á Norðurlandi eystra. Sjávarútvegurinn dafnar á Norðurlandi vestra og Austurlandi. Á Vestfjörðum er það fiskeldið sem er mikilvæg vaxtargrein.

Framleiðsla á mann lægst á Vestfjörðum

Teknar eru saman upplýsingar um framleiðslu á mann eftir landshlutum.  Hún er 24% meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni árið 2016. Hún er líka meiri á Vesturlandi og á
Austurlandi en annars staðar. Þetta þýðir ekki endilega að laun séu há þar, heldur
endurspeglar þetta mikla fjárfestingu. Stóriðja er á Vesturlandi og á Austurlandi og hlutur
fjármagns í framleiðslunni er mikill. Mest óx framleiðsla á mann á Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi á árunum 2008 til 2016, eða um 13-16%.

Framleiðslan 2016 var 1.113 milljarðar króna reiknað á verðlagi ársins 2005, sem Byggðastofnun hefur af einhverjum ástæðum valið að nota fremur en verðlag 2016. Af þeirri fjárhæð fór 69% á höfuðborgarsvæðið og aðeins 1,5% framleiðslunnar var á Vestfjörðum. þegar framleiðslan á hverju svæði er reiknuð niður á hvern mann  verður hún hæst á Austurlandi 3,9 milljónir króna og Höfuðborgarsvæðinu 3,6 milljónir króna, en lægst á Vestfjörðum 2,5 milljónir króna. Stóriðjan á Austurlandi og sterkur sjávarútvegur skýra sterka stöðu Austfirðinga í þessum samanburði.

Vaxandi framleiðsla frá 2016 á Vestfjörðum

Þessar tölur fyrir Vestfirði eru líklegar til þess að hafa batnað síðan 2016 með vaxandi laxeldi, en því fylgir mikil fjárfesting og vaxandi framleiðsla. Verður spennandi að fylgjast með því hverjar tölur um framleiðslu verða fyrir 2018 og 2019 og hver staða Vestfirðinga verður þá í samanburði við aðra landshluta.

DEILA