Fasteignamarkaðurinn: 10% hækkun í desember

Meðalverð á hvern kaupsamning á höfuðborgarsvæðinu varð í desember 2018 10% hærri en  það var í desember 2017.  Meðalverðið pr. kaupsamning hækkaði úr 47,2 mkr upp í 52,2 milljónir króna.

Þinglýstir voru 446 samningar í desember 2018 og samanlögð upphæð þeirra var 23,3 milljarðar króna. Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 15,6 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 5,8 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 1,9 milljörðum króna. Veltan minnkaði um 20% frá desember 2017.

Á Vestfjörðum var 8 samningum þinglýst. Þar af voru 3 samningar um eignir í fjölbýli, 4 samningar um eignir í sérbýli og 1 samningur um annars konar eignir. Heildarveltan var 195 milljónir króna og meðalupphæð á samning 24,3 milljónir króna. Af þessum 8 voru 7 samningar um eignir á Ísafirði. Þar af voru 3 samningar um eignir í fjölbýli, 3 samningar um eignir í sérbýli og 1 samningur um annars konar eignir. Heildarveltan var 182 milljónir króna og meðalupphæð á samning 25,9 milljónir króna. Eini samningurinn utan Ísafjarðar, sem þinglýst var, var um sölu á sérbýli fyrir 13 milljónir króna.

Þessar upplýsingar koma fram í fréttabréfi Þjóðskrár Íslands.

 

DEILA