Sjóðurinn Icelandic Wilflife Fund gagnrýnir harðlega frumvarpsdrög sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi,en þar er meðal annars áhættumat Hafrannsóknarstofnunar fengið lögbundna stöðu. Voru hugmyndir ráðherra kallaðar sríðsyfirlýsing gegn vísindum og lífríki Íslands.
En hverju svara landssamtök fiskeldisstöðva. Einar K. Guðfinnsson, stjórnarformaður samtakanna segir margt til bóta í þessum frumvarpsdrögum.
„Sú aðferð sem boðuð er í frumvarpsdrögunum um fiskeldi varðandi áhættumat er að mínu mati ekki fullnægjandi. Í sem skemmstu máli tel ég einfaldlega að við ættum að leita fyrirmynda í stofnstærðarmati, veiðiráðgjöf og ákvörðun aflamarks, sem við þekkjum og Hafrannsóknastofnun hefur unnið eftir um langt skeið. Það er sú hugmyndafræði sem ég tel að við eigum að yfirfæra á áhættumatið.
Á hinn bóginn tel ég að það sé ágætt að hafa samráðsvettvang þar sem hægt er að skiptast á skoðunum. Þessi samráðsvettvangur er til ráðgjafar en hefur ekki neitt stjórnsýsluvald. Í umræðunni sem fram fór eftir að Hafrannsóknastofnun gaf út sitt áhættumat á sínum tíma kom fram gagnrýni frá sveitarfélögunum um að þau hefðu enga aðkomu að því að ræða þessi mál út frá sínum sjónarhóli. Með tillögunni núna er meðal annars verið að bregðast við því sýnist mér. Slíkar ráðgjafanefndir eru til staðar víðar í stjórnsýslunni, svo sem varðandi starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar. Mér virðist ráðherra hafi leitað fyrirmyndar í því.
Það er til bóta í þessu frumvarpi að í áhættumati eigi að taka tillit til mótvægisaðgerða. Það er auðvitað bara rökrétt. Með mótvægisaðgerðum er verið að minnka áhættu af erfðablöndun og það hlýtur þess vegna að hafa áhrif á útkomu áhættumats hverju sinni.“