Arctic Fish: fyrsta eldislaxinum slátrað í gær

Í gær urðu þau tímamót í sögu Arctic Fish að fyrsta eldislaxinum var slátrað. Áður var fyrirtækið eingöngu í silungseldi en hætti því fyrir ári og síðan hefur verið unnið að því að byggja upp lífmassann í laxeldinu. Slátrað var á Þingeyri og síðan var laxinn fluttur til Bíldudals þar sem vinnsla til útflutnings fór fram. Búist var við því að laxinn yrði kominn í kassa af stað til Frakklands strax í gær.

Sigurður Pétursson, framkvæmdastjóri sagðist búast við því slátrað yrði eitthvað á þriðja þúsund tonnum af eldislaxi á þessu ári, en magnið væri háð umhverfislegum aðstæðum, en þær hafa hingað til verið fyrirtækinu hliðhollar. Í þessari slátrun sagðist Sigurður halda að meðalþyngdin á laxinum yrði meira en 5 kg.