Þar sem Landssamband fiskeldisfyrirtækja er gengið inn í samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendi SFS umsögn fyrir þeirra hönd drög að lagafrumvarpi um breytingu á ýmsum lagafrumvörpum sem tengjast fiskeldi.

Í umsögninni er ítarlega fjallað um áhættumat erfðablöndunar, sem er einn mikilvægasti þátturinn í væntanlegri lagasetningu.

Samtökin gera verulegar athugasemdir við ákvæði frumvarpsdraganna varðandi áhættumatið og hlutverk vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar. Segir að vísindastofnunin eigi að vera ráðgjafarstofnun en ekki stjórnvald.

Auðlindin er rýmið í sjónum

Í umsögninni sgeir að „auðlindin sem sjókvíaeldi á laxi nýtir er rýmið til fiskeldis. Burðarþolsmatinu er ætlað að meta afrakstursgetu auðlindarinnar og er þar um að ræða mat á þoli til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið.“

Þar sem laxeldi í sjókvíum getur haft óæskileg hliðaráhrif á aðra hagsmuni er því mikilvægt að reynt sé að draga úr slíkum hliðaráhrifum með mótvægisaðgerðum.

Burðarþolsmat á undan áhættumati 

Þá segir: „Þegar burðarþolsmatið liggur fyrir, og áður en leyfi til eldis er gefið út, er talið rétt að leggja mat á neikvæð áhrif fyrirhugaðs eldis á aðra hagsmuni og taka tillit til þeirra, að gefnum mótvægisaðgerðum, með takmörkun á umfangi eldisins ef þurfa þykir. Áhættumatinu er ætlað að meta slík áhrif vegna mögulegrar erfðablöndunar eldisfisks við villta laxastofna. Í ljósi ofanritaðs væri eðlilegri röð ákvæða sú, að lagagreinin um burðarþolsmat kæmi á undan greininni um áhættumat.“

Hafrannsóknastofnun er vísindaleg rannsóknastofnun

Um stöðu og hlutverk Hafrannsóknarstofnunar segir í umsögninni:

„Hafrannsóknastofnun er vísindaleg rannsóknastofnun. Mjög mikilvægt er að álit hennar sé ráðgefandi vegna bæði stefnumótunar stjórnvalda og ákvarðanatöku leyfisveitanda og eftirlitsaðila. Mikilvægt er að forðast að hinn vísindalegi ráðgjafi hafi hlutverk stjórnvalds því að slíkt fyrirkomulag væri vond stjórnsýsla og græfi undan trúverðugleika hins vísindalega ráðgjafa.“

Síðar í umsögninni segir um Hafrannsóknarstofnun:

„Í því samhengi er mikilvægt að Hafrannsóknastofnun hafi ekki stjórnvaldshlutverki að gegna sem rýra myndi trúverðugleika ráðgjafarhlutverks stofnunarinnar. Leggja verður þunga áherslu á mikilvægi þess að nýtingarstefna í fiskeldi verði ávallt nýtingarstefna stjórnvalda en ekki nýtingarstefna ráðgjafanna.“

Athugasemdir við áhættumatið

Gerðar eru athugasemdir um ákvæði sem lúta að áhættumatinu. Í fyrsta lagi telja samtökin þörf  á því að áhættumatið verði endurreiknað oftar en frumvarpsdrögin gera ráð fyrir  „í ljósi þróunar og þekkingar og raunhæfra mótvægisaðgerða, en þó eigi sjaldnar en einu sinni á ári.“

Þá  „verði áhættumat á hverjum tíma byggt á mismunandi og ólíkum forsendum og valkostum um eldisaðgerðir og mótvægisaðgerðir og niðurstöður birtar sem tafla með mati á ólíkum valkostum.“ Þá sgeir: „Eðlilegast hlýtur að teljast að áhættumatinu sé ætlað að nýtast sem vísindaleg ráðgjöf sem gagnist stjórnvöldum við mótun og þróun stefnu á sviði auðlindanýtingar með laxeldi.“

Þá er minnt á að þróun aðferða við áhættumat erfðablöndunar er skammt á veg komin og lagt til flokka mótvægisaðgerðir í tvo flokka:

  1. Fyrsta stigs mótvægisaðgerðir. Þær fara fram eldisstað. Dæmi um slíkar mótvægisaðgerðir eru notkun stærri seiða og smærri möskva til að draga úr seiðasleppingum, beiting ljósastýringar til að draga úr líkum á kynþroska, o.s.frv. Þess má vænta að þróun í eldistækni og fyrsta stigs mótvægisaðgerðum geti á hverjum tíma verið til þess fallin að draga enn frekar úr áhættu á erfðablöndun.

2. Annars stigs mótvægisaðgerðir. Þær fara fram í ánum. Er þá fylgst á reglubundinn hátt       með komu eldisfiska, t.d. með notkun myndavéla, og brugðist við og eldisfiskar        fjarlægðir    á  kostnað eldisaðila, annað hvort með vöktun og veiði eða með því að virkja     gildrur við árnar.

Að mati samtakanna eru virkar varnir og mótvægisaðgerðir, bæði fyrsta stigs og annars stigs, ábyrgasta leiðin til að lágmarka áhættu, segir að lokum í umsögninni um áhættumatið.

DEILA