Veiðigjaldafrumvarpið orðið að lögum

Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar varð að lögum á þriðjudaginn. Formaður atvinnuveganefndar Lilja Rafney Magnúsdóttir, stýrði málinu í meðförum nefndarinnar. Við lokaafgreiðslu málsins  dró hún saman efnisatriði málsins eins og þau blöstu við henni:

„Herra forseti. Við greiðum atkvæði um veiðigjöld eftir 3. umr. Hér er verið að afkomutengja veiðigjöld í rauntíma og tryggja þjóðinni sanngjarna auðlindarentu af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Við erum einnig að koma til móts við litlar og meðalstórar útgerðir með því að styrkja frítekjumarkið mjög mikið sem dregur úr áframhaldandi samþjöppun aflaheimilda og eflir sjávarbyggðirnar. Málið hefur fengið mikla og góða umfjöllun í atvinnuveganefnd hjá fjölda gesta og farið í umsagnarferli. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur kynnt málið vítt og breitt um landið. Ég tel því að við séum komin á góðan stað að afgreiða veiðigjöldin sem eru, að ég tel, mikil framför frá þeim veiðigjöldum sem verið hafa þar sem við erum að breyta um og fá ríkisskattstjóra til að vinna þetta (Forseti hringir.) sem best má vera.

Ég tel að það hafi verið mjög vönduð vinnubrögð í nefndinni og meðan á nefndarstarfi stóð komu engar kvartanir um að eitthvað væri ekki með réttum hætti í vinnu nefndarinnar. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að allt hafi gengið vel fyrir sig og við höfum öll, hvort sem það er meiri hluti eða minni hluti, sameinast í því að kalla fram sem flestar spurningar í málinu sem vöknuðu upp og reyna að draga fram svör gesta við þeim spurningum sem eðlilega komu fram varðandi þetta mál.

Ég tel að tillaga sú sem liggur fyrir, breytingartillaga frá meiri hluta atvinnuveganefndar, sé líka þess eðlis að það hafi legið fyrir allan tímann í atvinnuveganefnd að verið var að reyna að nálgast það að styrkja enn frekar með einhverjum hætti afslátt eða frítekjumark gagnvart litlu og meðalstóru útgerðunum og horfa til þess. Þessi niðurstaða náðist sem ég tel vera mjög hagfellda fyrir minni fyrirtæki.

Við heyrum úti í þjóðfélaginu að það eru deildar meiningar um þetta frumvarp hjá greininni sjálfri. Eins og við áttum von á heyrist gagnrýni úr ýmsum áttum og gagnrýni á að veiðigjöldin samkvæmt frumvarpinu verði allt of há. Öðrum finnst að veiðigjöldin séu að lækka og enn aðrir vilja fá meiri stuðning við hinar litlu og meðalstóru útgerðir þar sem hætta er á byggðaröskun og afleiðingu þess að verið hafi erfið rekstrarskilyrði og miklar sveiflur í greininni undanfarin ár.

En einhvers staðar verður að lenda og ég tel að með þessu frumvarpi séum við að nálgast mjög það sem búið er að vinna að allt frá árinu 2012, í raun frá því að lög um veiðigjald voru sett, þ.e. að tryggja meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika og jafna sveiflur með því að draga upplýsingar saman úr skattframtölum viðeigandi fyrirtækja og upplýsingum um aflaverðmæti tegunda hjá Fiskistofu, vinna úr þeim gögnum og leggja á gjöld miðað við hagnað útgerðarinnar hverju sinni. Tekið er meðaltal af þeim útgjöldum sem þar eru undir og aflaverðmætum. Álagningin byggist á því varðandi þann reiknistofn sem lagt er á 33,3% álag. Þau gjöld geta sveiflast til og geta orðið hærri eða lægri eftir afkomu greinarinnar hverju sinni.

Ég tel mjög brýnt að við sem þingheimur sameinumst um að standa með því að afkomutengja veiðigjöld, eins og ég held að hafi staðið upp úr flestum stjórnmálamönnum.“

DEILA