Svefntími styttist og hreyfing minnkar hjá ungmennum í framhaldsskóla

Mynd frá MÍ heilsueflandi framhaldsskóla. Myndin tengist ekki rannsókninni.

Svefntími unglinga styttist að meðaltali um nærri hálfa klukkustund milli 15 og 17 ára aldurs og á sama tíma dregur töluvert úr hreyfingu á virkum dögum hjá þessum hópi. Þetta sýna nýjar niðurstöður rannsóknahóps í íþrótta- og heilsufræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem hafa í yfir áratug fylgst með heilsu, svefni og andlegri líðan stórs hóps íslenskra ungmenna. Rannsóknin sýnir einnig að einungis um fimmtungur 15 ára unglinga sem tók þátt í rannsókninni náði átta tíma viðmiðunarsvefni á nóttu að meðaltali og þá sofa framhaldsskólanemar í fjölbrautakerfi að jafnaði lengur en nemendur í bekkjarkerfi.

Rannsóknin sem um ræðir nefnist Heilsuhegðun ungra Íslendinga og er framhald á rannsókninni Lífsstíll 7 og 9 ára íslenskra barna – íhlutunarrannsókn til bættrar heilsu sem fram fór á árunum 2006 til 2008. Alls hafa um 500 nemendur, sem fæddir eru árið 1999, tekið þátt í rannsóknunum tveimur. Rannsóknarhópurinn hefur skoðað stöðu og langtímabreytingar á holdarfari, hreyfingu, svefni, þreki, andlegum þáttum og lifnaðarháttum íslenskra ungmenna, fyrst við 7 og 9 ára aldur og síðan við 15 ára og 17 ára aldur hjá þátttökuhópnum.

Undanfarin misseri hefur rannsóknarhópurinn lagt sérstaka áherslu á að rannsaka m.a. breytingar á svefnvenjum og hreyfivirkni ungmenna frá 15 ára til 17 ára aldurs en þess má geta að þátttakendur í rannsókninni eru í fyrsta árgangnum sem kom inn í framhaldsskólana eftir að stytting á námstíma til stúdentsprófs tók gildi.

Niðurstöður hópsins leiða m.a. í ljós að um helmingur 15 ára ungmenna sem tók þátt í rannsókninni nær viðmiðum um æskilega hreyfingu á viku sem eru sex klukkustundir. Enn fremur sýna niðurstöðurnar að 15 ára íslensk ungmenni fara seint að sofa og sofa ekki nema tæplega sex og hálfan klukkutíma á nóttu að meðaltali. Aðeins 23% stúlkna og 20% drengja náðu átta klukkuststunda viðmiðunarsvefni yfir vikuna.

Tveimur árum síðar, þegar þessi hópur unglinga er kominn í framhaldsskóla, hefur ýmislegt breyst. Til að mynda hefur svefnlengd styst að meðaltali um 24 mínútur á nóttu, þ.e. milli 15 og 17 ára aldurs. Sautján ára unglingar fara enn fremur almennt seinna að sofa á skóladögum en 15 ára en hins vegar er ekki marktækur munur á því hvenær unglingahóparnir fara á fætur. Aftur á móti eykst breytileikinn í svefni unginga töluvert milli mælinganna tveggja. Þátttakendur í rannsókninni fóru almennt að sofa í kringum miðnætti við fimmtán ára aldur en þegar þeir eru orðnir sautján ára virðist meiri breytileiki í þeim tíma og sjá má í gögnunum hóp nemenda sem fara jafnvel að sofa klukkan 3 eða 4 að nóttu á skóladegi.

Í rannsókninni hafa einnig verið kannaðar breytingar á svefntíma með tilliti til vals á framhaldsskóla og niðurstöður sýna að nemendur í fjölbrautakerfi sofa að jafnaði lengur á skóladögum en nemendur í bekkjakerfi sem aftur fara fyrr á fætur. Enn fremur leiða niðurstöðurnar í ljós að hreyfing hjá hópnum minnkar að meðaltali um 13% milli mælinganna tveggja en athyglisvert er að hún dregst saman um nærri fimmtung á virkum dögum en ekkert um helgar. Þátttaka í formlegu íþróttastarfi og heilsurækt á eigin vegum dregst enn fremur saman um 25% milli 15 og 17 ára aldurs en um helmingur 17 ára ungmenna segist stunda íþróttir eða hreyfa sig reglulega.

Stór hópur fræðimanna og nema hefur komið að rannsóknunum, bæði í Háskóla Íslands og erlendis. Í rannsóknarhópnum eru alls fimm vísindamenn og fjórir doktorsnemar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands auk tveggja samstarfsmanna þeirra við National Insititutes of Health í Washington í Bandaríkjunum. Þá hafa átta nemendur lokið meistaraprófi frá Háskólanum, þar sem stuðst er við gögn úr rannsóknunum, og fjórir til viðbótar vinna nú með þau í meistaraverkefni sínu.

DEILA