Súðavík: góð fjárhagsstaða

Súðavík.

Fjárhagsáætlun Súðavíkurhrepps fyrir 2019 hefur verið afgreidd. Niðurstaðan af rekstri er að tekjur umfram gjöld eru 23 milljónir króna. Skatttekjur eru áætlaðar 259 milljónir króna. Útsvar  er stærsti einstaki tekjuliðurinn af skattstofnum eða 105 milljónir króna. Hæsti liðurinn er hins vegar Jöfnunarsjóður sveitarfélaga. framlög sjóðins eru áætluð 133 milljónir króna á  næsta ár eða um 50% af öllum skatttekjum.

Forsendur áætlunarinnar miðast við 6,2% launahækkun en að öðru leyti 3,2% hækkun tekna og gjalda. Álagningarhlutföll fasteignagjalda eru óbreytt. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði er 0,45%.

Langstærsti útgjaldaliðurinn er til fræðslu- og uppeldismála 107 milljónir króna. Til grunnskóla er ráðstafað 71 milljón króna, 24 milljónir til leikskóla og 10 milljónir króna til tónlistarskóla. Til viðhalds gatna fara 5 milljónir króna, 3 milljónir króna í fjárgirðingu og 5,5 milljónum króna í slátt og hirðingu opinna svæða. Resktur skrifstofunnar kostar 38,6 milljónir króna.

Fjöldi íbúa í Súðavíkurhreppi  1. jan 2018 var 199. Meðalaldur íbúa hefur farið lækkandi, fjölskyldufólki hefur fjölgað og nemendum í Súðavíkurskóla hefur fjölgað segir í greinargerð með fjárhagsáætluninni. Sveitarstjóri er Pétur Markan.

DEILA