Samgönguráðherra: markaðar tekjur af umferð renna til vegagerðar

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra segir í færslu á facebook að markaðar tekjur af umferð hafi alltaf runnið til vegagerðar. Þessar tekjur hafi verið 19 milljarðar króna á þessu ári. Þá segir hann að vegakerfið sé víða laskað og illa undirbúið fyrir aukinn umferðarþunga á síðustu árum.

Færslan í heild:

Vegakerfið er víða laskað og illa undirbúið fyrir þann mikla umferðarþunga sem hefur orðið á allra síðustu árum. Framlög til vegagerðar hafa verið of lág og ekki haldist í hendur við aukið álag. Fjármagn vegna ökutækja og eldsneytis skila ríkissjóði um 47 milljarða og er hlutfall þess sem rennur til vegagerðar um 70%, eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. Restin fer í okkar sameiginlegu sjóði sem deilist út í heilbrigðiskerfið, tollgæslu, löggæslu ofl m.a. til að standa undir kostnaði við eftirlit og afleiðingar af notkun ökutækja.
Gjöldin eru: Almennt vörugjald af bensíni, sérstakt vörugjald af bensíni, olíugjald, kolefnisgjald, bifreiðagjald, kílómetragjald og þungaskattur. Ekki hefur verið litið á vsk. af innflutningi af bifreiðum, varahlutum osfrv sem fjármagn til vegagerðar heldur frekar til að fjármagna heibrigðis- mennta- og velferðarkerfið ofl.
Svokallaðar “markaðar tekjur” (sem nú er aflagt hugtak í fjárlögum) eru ca 19 ma á árinu 2018 og hafa þær tekjur alltaf farið allar beint til vegagerðar. Fjármagn til vegamála þarf að taka mið af stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiðum.

 

DEILA