Nýr varaþingmaður kjördæmisins: Telur nauðsynlegt að komið verði á fót heimavist

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir í ræðustól Alþingis.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir hélt í gær jómfrúarræðu sína á Alþingi. Lilja er 22 ára nemi og formaður ungra Framsóknarmanna. Lilja situr á þingi þessa vikuna fyrir Ásmund Einar Daðason þingmann kjördæmisins.

 Í jómfrúarræðu sinni fjallaði Lilja um nauðsyn þess að nemendur af landsbyggðinni geti sótt heimavist á höfuðborgarsvæðinu til þess að geta notið jafnréttis til náms.

Lilja hefur einnig lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að menntamálaráðherra beiti sér fyrir uppbyggingu heimavistar fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu.

Í ræðu sinni Sagði Lilja m.a. :

Þeir nemendagarðar sem eru á höfuðborgarsvæðinu eru ætlaðir fyrir háskólanema. Því reyna margir nemendur að flytja inn á ættingja sína eða vinafólk eða reyna fyrir sér á rándýrum leigumarkaði. Sá frumskógur hentar ekki 15-18 ára ungmennum. Því eru sumir sem taka á það ráð að hætta í námi eða skipta um námsbraut þegar þeim tekst ekki að finna stað til að búa á og það bitnar gjarnan á iðnnámi. En svona á þetta ekki að vera! Ungmenni eiga rétt á því að stunda það nám sem þeir vilja. Húsnæðismál eiga ekki að vera vandamál fyrir þennan aldurshóp og ég er nokkuð viss um að foreldrar vilji ekki senda börnin sín í óvissar aðstæður í nokkur ár.

Því tel ég nauðsynlegt að komið verði á fót heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema af landsbyggðinni. Það myndi opna möguleika margra nemenda og einnig vera leið til að auka jafnrétti nemenda á Íslandi. Því allir ættu að eiga sama rétt á námi, óháð því hvaðan þeir koma.

DEILA