málefni fatlaðra: munum óska eftir fundi með ráðherra

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir að aukinn kostnaður sveitarfélaga af málefnum fatlaðra sé í „stóra samhenginu hluti af áframhaldandi yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þar er enn verið að hliðra til og færa skilin þarna á milli. Þ.e.a.s.  hvar mörkin liggja. Þetta hefur bein áhrif á þá þjónustu sem okkur ber að veita og þann kostnað sem til fellur.“

Að sögn Guðmundar eru þrjár veigamestu skýringarnar á auknum kostnaði ársins 2019 þessar:

  1. breytingar/stækkun á húsnæði Hvestu. Fötluðum starfsmönnum í Hvestu hefur fjölgað um 80% síðan starfsemin flutti í núverandi húsnæði árið 2004. Leiðbeinendum hefur fjölgað í samræmi við það. Í dag eru fleiri starfsmenn með þunga og flókna fötlun sem þarfnast aukinnar sérhæfingar og meira rýmis.
  2. Nýtt þjónustuúrræði í samræmi við lög um máefni fatlaðra
  3. kostnað vegna NPA samninga (samningar um sólarhringsþjónustu) þetta er þjónusta sem ekki hefur verið veitt áður og því hreinn viðbótarkostnaður.

 

En hver verða viðbrögð ráðamanna sveitarfélagsins:

„Við hyggjumst óska eftir fundi með ráðherra á nýju ári til að fara yfir málaflokkinn í heild sinni. Þar viljum við ræða þessa yfirfærslu á málaflokknum í heild sinni og vekja athygli á stórauknum kostnaði sem aðgerðin hefur haft í för með sér fyrir sveitarfélög. Skilningur okkar var að fullnægjandi fjármagn myndi fylgja allri lögbundinni þjónustu sem færðist yfir á hendur sveitarfélaga. Okkur leikur forvitni á að vita hvort þau fyrirheit standi.“