Kvarta til ESA vegna fiskeldisleyfa

Frá afmælisfundi landsambands veiðifélaga.

Fjögur náttúruverndarsamtök, veiðifélög og veiðiréttarhafar hafa kvartað til ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, vegna nýlegra lagabreytinga á lögum um fiskeldi. Hópurinn telur að með lögunum sé kæruréttur tekinn af almenningi og þannig brotið á EES samningi, þá sé gengið framhjá rétti umhverfissamtaka og almenningi til að koma að ákvörðunum sem varða umhverfið þegar bráðabirgðaleyfi voru veitt.

Frá þessu er sagt á vef landssambands veiðifélaga.

Áður hafði Landvernd send sambærilegt erindi til ESA.

RUV og mbl.is hafa greint frá fréttatilkynningu samtakanna þar sem rakin er rökstuðningur þeirra fyrir kærunni. Segir að 15.000 manns standi að baki kvörtunum. Í tilkynningu frá hópnum kemur fram að hann undirbúi jafnframt kvörtun til eftirlitsnefndar með framkvæmd Árósarsamningsins, þá fyrstu frá Íslandi. Hópurinn telji að stjórnvöld meti lítils lýðræðislegt hlutverk umhverfisverndarsamtaka og skuldbindingar sínar gagnvart grundvallarstoðum Árósarsamningsins.

bb.is hefur óskað eftir því við Náttúruverndarsamtök Íslands að fá fréttatilkynninguna, en vefurinn hefur ekki fengið nein viðbrögð við erindinu.

DEILA