Jólahefðir

Ég vill byrja á að þakka vinkonu minni henni Katrínu Maríu fyrir áskorunina. Hún vakti mig til umhugsunar og ég hef leitt hugann að margvíslegum hlutum sem tengjast aðdraganda jólanna hjá mér og fólkinu í kringum mig. Ég er mikið fyrir jólahefðir og finnst þær mikilvægar til að geta notið hátíðana sem best með fólkinu í kringum sig. Flestar jólahefðir eiga það sameiginlegt að fólk kemur saman, vinahópar, stórfjölskyldur, vinnustaðir og ýmsar tegundir hópa koma saman og halda sínum jólahefðum á lofti.

Desembermánuður getur verið Íslendingum sérlega erfiður varðandi veðurfar og hefur oft í för með sér miklar tafir á samgöngum og erfitt getur verið að komast á milli landshluta. Jólin eru mikill tími ferðalaga þar sem fólk leggur leið sína til ættingja sinna og ástvina. Jólin á Ísafirði eru alveg sérstök varðandi þetta að mínu mati. Það er fátt jólalegra en þegar brottfluttir Ísfirðingar týnast vestur í aðdraganda jólanna og bærinn fyllist af fólki sem maður hittir sjaldan. Ísfirðingar eru mjög heimakærir leyfi ég mér að fullyrða og fólk sem á fjölskyldu á Ísafirði en er búsett á höfuðborgarsvæðinu er mjög duglegt að leggja á sig ferðalagið til að komast heim um jólin. Vorið 2017 vorum við fjölskyldan svo heppin að foreldrar mínir og bróðir fluttust aftur til Ísafjarðar eftir 10 ára veru á Akranesi, sem hefur verið mikil breyting fyrir okkur hvað varðar jólahátíðina og samveru með ættingjum, en fyrir þann tíma einkenndust okkar jólin mun meira af ferðalögum.

Í minni fjölskyldu leynast eins og hjá flestum öðrum hefðir sem tengjast einhverju góðgæti. Undanfarin ár hefur stórfjölskyldan komið saman og skorið úr laufabrauð af mikilli snilld, steikt það og svo taka allir sinn skerf með sér heim og geta borið það á borð um hátíðarnar ásamt öðrum jólamat. Mikil vinna getur legið á bakvið hverja köku og einnig er ákveðin kúnst að geta hnoðað og flatt út gott laufabrauð. Hæfileikarnir fara batnandi á hverju ári. Mömmukökur baka ég alltaf en það eru lang vinsælustu smákökurnar á heimilinu. Pabbi gerir iðulega tvær tegundir af jólaís, heimagerður vanilluís og toblerone ís sem mér þykir algjörlega ómissandi toppaður með gamaldags heimagerðri karmellusósu. Það er ákveðin sérviska í mér að það verður að vera til nóg af ís svo hann endist fram að afmælisdeginum mínum sem er á þrettándanum, 6.janúar.

Þrátt fyrir þessar hefðir fjölskyldunnar þá er alltaf gaman að taka upp á nýjum siðum í desember og ég ætla mér að skapa nýjar hefðir með börnunum okkar og reyna að eiga sem flestar samverustundir með þeim í desember.

Ég skora á Sissú, Sigþrúði Gunnsteinsdóttur að segja frá sínum jólahefðum

Andrea Gylfadóttir

DEILA