Ísafjarðarbær: fjárfest fyrir 908 milljónir króna

Fjárhagsáætlun Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2019 var afgreidd í bæjarstjórn síðasta fimmtudag. Fjárfestingar ársins verða 908 milljónir króna og þar af greiðir ísafjarðarbær 574 milljónir króna.

Langstærsta framkvæmdin er boltahús á Torfnesi, 38 metra yleiningahús.  Í þá framkvæmd er varið 220 milljónum króna. Kostnaðurinn við boltahúsið er 540 milljónir króna og verður verkinu lokið árið 2021. Næstdýrasta framkvæmdin er viðbygging við leikskólann við Eyrarskjól sem kostar 120 milljónir króna. Til viðbótar eru 70 milljónir króna árið 2020 og er því kostnaðurinn alls 190 milljæonir króna við viðbygginguna.

Fjárfrekasta framkvæmdin er  bygging leiguíbúða við Sindragötu 4a. Til þeirrar framkvæmdar fara 250 milljónir króna sem stofnframlag. Endurgreiðslur vegna þess eru 210 milljónir króna, þannig að hlutur bæjarsjóðs verður 40 milljónir króna.

Til ofanflóðavarna er varið 100 milljónum. Frá ríkinu koma 90 milljónir sem endurgreiðsla svo hlutur bæjarsjóðs verður aðeins 10 milljónir króna.

Ráðist verður í endurbætur og viðhald fyrir ríflega 300 milljónir á árinu en stærstu viðhaldsverkefni sveitarfélagsins verða á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.