Góð staða í viðskiptum við útlönd

Ríflegur afgangur af viðskiptum við útlönd á 3. ársfjórðungi ársins. Á þriðja ársfjórðungi var 76,5 ma.kr. afgangur af viðskiptum við útlönd. Þetta er aðeins meira en á sama tímabil í fyrra þegar afgangurinn mældist 65 ma.kr. og jókst afgangurinn um 11,4 ma.kr. milli ára.

Þetta kemur fram í Hagsjá fréttabréfi Hagfræðideildar Landsbankans.

Þetta er í fyrsta sinn síðan á 4. ársfjórðungi 2016 sem viðskiptajöfnuður eykst milli ára, en á síðustu sex ársfjórðungum (þ.e. 1. ársfjórðungi 2017 til og með 2. ársfjórðung 2018) dróst hann saman milli ára. Þetta er næstmesti afgangurinn sem mælst hefur hér
á landi, en eina skiptið sem meiri afgangur mældist var á þriðja ársfjórðungi 2016, þegar hann var 99,6 ma.kr. Yfirleitt er langmestur afgangur á 3. ársfjórðungi, enda koma flestir ferðamenn til landsins þá.

Uppsafnaður afgangur frá árinu 2014 um 550 ma.kr.

Frá byrjun árs 2014 hefur einungis eitt sinn mælst halli af viðskiptum við útlönd, en á 2. ársfjórðungi í ár mældist 4,2 ma.kr. halli. Heildarafgangur á þessum þremur og hálfu ári er 550 ma.kr. Hrein erlend staða þjóðarbúsins hefur stórbatnað á þessu tímabili og farið úr því að vera neikvæð um 190 ma.kr. í að vera jákvæð um 370 ma.kr. Alls hefur hrein erlend staða þjóðarbúsins batnað um 560 ma.kr. á þessu tímabili.

Í lok þriðja ársfjórðungs námu erlendar eignir þjóðarbúsins 3.380 mö.kr. og erlendar skuldir 3.012 mö.kr. Hrein staða var því jákvæð um sem nemur 386 mö.kr., eða 13% af VLF. Hreinar erlendar eignir þjóðarbúsins hafa aldrei verið meiri. 

DEILA