Gleðilegt nýtt ár og þakkir fyrir það sem er að líða

Bæjarins besta á Ísafirði sendir lesendum sínum og velunnurum nær og fjær þakkir fyrir árið sem senn er að kvöldi komið. Megi komandi ár verða þeim og Vestfirðingum öllum framfaratími, þar sem áfram muni halda viðsnúningurinn í byggðaþróuninni sem hafinn er á sunnanverðum Vestfjörðum fyrir tilstilli fiskeldisins í sjó.

Árið hefur sýnt Vestfirðingum að áratuga afturför í fjórðungnum er ekkert náttúrulögmál sem engu verður þokað um. Öðru nær, þróunin er mannanna verk og það verður mannanna verk að breyta henni til hins betra. Það segir sína sögu um það sem við er að glíma, að erlent fjármagn leikur lykilhlutverk í hinni vestfirsku sókn sem hafin. Það eru írskir aðilar sem byggðu kalkþörungaverksmiðjuna á Bíldudal og áforma að reisa aðra verksmiðju í Súðavík. Það eru norskir og pólskir aðilar sem bera hitann og þungan af laxeldinu á Vestfjörðum.

Það sorglega er að það eru einkum innlendir valdamenn sem eru fundvísir á hætturnar, sem kunna að fylgja nýrri atvinnuuppbyggingu og fjölgun íbúa á Vestfjörðum. Staðið hefur verið í vegi fyrir því að Vestfirðingar  hafi fylgt eftir öðrum landsmönnum í efnahagslegum framförum á síðustu 35 árum.

Náttúrulegar aðstæður á Vestfjörðum eru slíkar, bæði til lands og sjávar, að þar á að vera blómlegasta byggð landsins. Það er ekki. Nú hafa opnast möguleikar til þess að nota lífríki fjarðanna, skaðlaust, til þess að framleiða verðmikla vöru á heimsmarkaði, til hagsbóta fyrir land og þjóð. Það er ekkert frá neinum tekið. Laxeldinu mun fylgja uppbygging af óþekkti stærðargráðu á Vestfjörðum.

Það er engin vegferð án breytinga, það verða engar framfarir án fórna. Í þessu framfaramáli eru litlu fórnað en mikið uppskorið. Sama á við um önnur helstu baráttumál Vestfirðinga, vegagerð í Gufudalssveit og virkjun Hvalár.

Það verður verkefni árins 2019 að leiða til lykta þessu þrjú framfaramál. Gangi það eftir verður árið Vestfirðingum farsælt.

-k

DEILA