Eldislax gengur í á í Arnarfirði

Mynd úr skýrslu um rannsókn á fiskistofnum í Ketildölum, feb 2017.

Fyrirtækið laxfiskar annast vöktun á þremur ám í Ketildölum í Arnarfirði. Í október síðastliðinn veiddust tveir norskættaðir eldislaxar í Fífustaðadalsá. Það voru hrygnur sem voru komnar að hrygningu. Þetta kemur fram í grein sem Jóhannes Sturlaugsson, líffræðingur skrifar á heimasíðu Laxfiska.

Jóhannes hefur undanfarin ár unnið að rannsóknum á Fífustaðadalsá, Selárdalsá og Bakkadalsá í Ketildölum í Arnarfirði, sem eru utan við Bíldudal. Eigandi ánna er athafnamaðurinn Ari Welding.

Rannsóknir Jóhannesar hafa leitt í ljós að í Fífustaðadalsá og Selárdalsá eru laxastofnar mjög smáir eða 20-30 fiskar í hvorri á en hrygning er samt árviss atburður. Það er ekki reyndin í þriðju ánni Bakkadalsá.

Í skýrslum Veiðimálstofnunar og síðar Hafrannsóknarstofnunar og Fiskistofu um veiðar í íslenskum laxveiðiám er engin þessara áa talin upp meðal þeirra sem gefa af sér veiði og engar tekjur skráðar af veiðihlunnindunum.

Árið 2004 var ákváðu stjórnvöld að heimila laxeldi í sjó á Vestfjörðum, einu af fáum svæðum landsins, vegna þess að laxveiðihagsmunir voru þar litlir og óverulegir.

Athyglisvert er að vöktun áa virðist samkvæmt þessu vera möguleg sem úrræði til þess að koma í veg eða draga úr líkum á hrygningu eldisfiska í ánni.

Ekki náðist í Jóhannes Sturlaugsson við vinnslu þessarar fréttar.

DEILA