Árneshreppur fær engin svör

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti fyrir miðri mynd. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps hefur ekki fengið nein viðbrögð frá þingmönnum kjördæmisins við bréfi sem hún sendi þann 15. nóvember, þar sem skorað er á þá að sjá til þess að vegabætur yfir Veiðileysuháls komist á framkvæmdaáætlun. Minnir hún á að samkvæmt gildandi vegaáætlun séu 200 milljónir króna til framkvæmda á Veiðileysuháls á þessu ári, en ekkert hafi orðið af framkvæmdum. Þá bendir Eva á að framkvæmdir við Hvalárvirkjun kalli á vegabætur. Því til stuðnings fylgir erindi Vesturverks  ehf til hreppsnefndar. Þar segir Gunnar G. Magnússon framkvæmdastjóri að framkvæmdir við Hvalárvirkjun muni hefjast árið 2020 ef áætlanir standast og þeim yrði lokið 2024. Hins vegar sé fé til Veiðileysuháls á árunum 2022-2028 og vegarbæturnar komi því of seint til þess að gagnast við virkjunarframkvæmdirnar, en þá verða miklir þungaflutningar um sveitina. Lýsir Vesturverk ehf yfir áhyggjum af samgönguáætluninni eins og hún er framlögð.

Eva sagði í samtali við bb.is í gærkvöldi að hún hefði sent um helgina þremur ráðherrum, for­sæt­is­ráðherra, fjár­málaráðherra og sam­gönguráðherra, tölvupóst út af samgöngumálunum og vill fá meiri snjómokstur en nú er í boði.

DEILA